24.10.2016
Í dag er 41 ár frá því að konur fylktu liði og komu saman víða um land til að vekja athygli á ójafnri stöðu og launamun kynjanna.Samkvæmt nýjustu rannsóknum eru konur á Íslandi að meðaltali með 28,7% lægri tekjur en karlar og hafa samkvæmt því lokið vinnudegi sínum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur. Konur um land allt ætla því að ganga út af vinnustöðum kl. 14.38 í dag en þá er miðað við vinnutímann 9-17.
16.08.2016
Fyrir skömmu komu hingað systur og afhentu skjöl ömmu sinnar,
Önnu Maríu Ísleifsdóttur. Anna María er ágætt dæmi um einstakling sem þarf að
hafa svolítið fyrir að finna í manntalsgögnum því þar er hún ýmist skrifuð Anna
eða María og stundum undir báðum nöfnum.
Anna María fæddist 1883 og þegar hún var á fjórða ári lést
faðir hennar, þá bóndi á Hrappstöðum í Kræklingahlíð. Móðir hennar, Rósa
Ólafsdóttir, bjó eitthvað áfram á Hrappstöðum en síðar hjá dóttur sinni á
Hesjuvöllum. Nokkur af systkinum Önnu Maríu fluttist til Kanada og mamma hennar
flutti þangað líka.
16.07.2016
Í dag var smá samkoma á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Tilefnið var það að Kristján frá Djúpalæk hafði lagt inn á safnið innsiglaðan pakka árið 1979 og mælt svo fyrir að hann skyldi opnaður í dag, en í dag eru nákvæmlega 100 ár frá því að hann fæddist.
16.06.2016
Í tilefni af þjóðhátíðardeginum birtast hér 3 myndir frá hátíðahöldum á Akureyri á árabilinu 1944 - ca 1975.
03.06.2016
Sjómannadagurinn er fyrsti sunnudagurinn í júní ár hvert og
er hann hátíðisdagur allra sjómanna. Dagurinn var líklega fyrst haldinn
hátíðlegur á Akureyri árið 1939, en fyrr tíðkaðist að halda sérstakar
sjómannamessur í kirkjum. Árið 1987 var dagurinn lögskipaður frídagur sjómanna.
Á Héraðsskjalasafninu eru til skjöl sem tengjast
sjómannadeginum og má sjá hér dæmi um þau.
04.05.2016
Fyrir skemmstu fengum við fyrirspurn um upphaf götulýsingar á
Akureyri. Saga götulýsingar á Akureyri
hefur ekki verið skrifuð en í fundargerðum bæjarstjórnar má sjá að farið var að
huga að götulýsingu árið 1891.
08.04.2016
Ferðafélag Akureyrar var stofnað 8. apríl 1936 og er því 80 ára.
Félagið fagnar þessum tímamótum m.a. með sýningu með munum, skjölum og myndum í
anddyri Brekkugötu 17 og í apríl verða haldnir fyrirlestrar um einstaka þætti í
sögu félagsins. Nánar má lesa um það hér.
05.04.2016
Þessa dagana er Leikfélag Hörgdæla að sýna leikritið Með
vífið í lúkunum og Freyvangsleikhúsið að sýna Saumastofuna. Af því tilefni
drógum við fram leikskrár frá þessum félögum.
14.03.2016
Laugardaginn 12. mars var þess minnst með ýmsum hætti að 100
ár eru liðin frá stofnun Alþýðusambands Íslands.
Samkvæmt fyrstu lögum félagsins var tilgangur sambandsins að
koma á samstarfi meðal íslenskra alþýðumanna á grundvelli jafnaðarstefnunnar,
efla og bæta líkamlegan og andlegan hag alþýðu og kjósa menn úr sambandinu til opinberra starfa
fyrir bæjar- og sveitarfélög.
Stofnfélög ASÍ voru sjö, öll úr Reykjavík og Hafnarfirði.
Fyrsta eyfirska félagið til þess að óska eftir inngöngu í
ASÍ var Verkamannafélag Akureyrar og var það í árslok 1917.
08.03.2016
Eftirfarandi skrifaði Sveinn Þórarinsson amtsskrifari í dagbók sína 8. mars 1866:
Logn og frostlaust veður blítt. Nú er landfastur ís fyrir öllu norðurlandi og hefir sumstaðar orðið töluverður höfrungafengur. Finsen vitjaði mín og var ég aumur. Austan póstur kom loksins. BF Sigurbirni.
Þegar Sveinn Þórarinsson skrifaði þessar línur bjó hann á Akureyri, í því húsi sem seinna átti eftir að vera þekkt sem Nonnahús enda umræddur Sveinn faðir Nonna. Finsen, sem Sveinn talar um, var Jón Finsen héraðslæknir í austurhéraði norðuramtsins. BF stendur fyrir bréf frá.