Laugardaginn 12. mars var þess minnst með ýmsum hætti að 100 ár eru liðin frá stofnun Alþýðusambands Íslands.
Samkvæmt fyrstu lögum félagsins var tilgangur sambandsins að koma á samstarfi meðal íslenskra alþýðumanna á grundvelli jafnaðarstefnunnar, efla og bæta líkamlegan og andlegan hag alþýðu og kjósa menn úr sambandinu til opinberra starfa fyrir bæjar- og sveitarfélög.
Stofnfélög ASÍ voru sjö, öll úr Reykjavík og Hafnarfirði.
Fyrsta eyfirska félagið til þess að óska eftir inngöngu í ASÍ var Verkamannafélag Akureyrar og var það í árslok 1917.
Verkamannafélag Akureyrar var stofnað 1906 og starfaði til 1943.
Félagið var lengi hagsmunafélag allra vinnandi karla á Akureyri, annarra en þeirra sem voru háttsettir stjórnendur eða opinberir starfsmenn. Í félaginu voru verkamenn, sjómenn, vélstjórar, ökumenn hestvagna, trésmiðir, múrarar, málarar, verkstjórar, skipstjórar og jafnvel gullsmiðir og skósmiðir.
Fyrstu árin voru kröfur um að auglýstir kauptaxtar væru haldnir og bætt verslunarkjör meira áberandi í starfi félagsins en krafan um hærra kaup. Félagið beitti sér m.a. fyrir stofnun Kaupfélags verkamanna Akureyrar og unnið var kappsamlega að stofnun og eflingu sjúkrasjóðs meðal félagsmanna. Einnig var mikil áhersla lögð á aukna atvinnu í bæjarfélaginu enda voru þeir sárafáir sem höfðu vinnu árið um kring. Algengast var að menn höfðu nokkuð samfellda vinnu yfir hásumarið, stopula vinnu vor og haust og voru nánast atvinnulausir yfir veturinn.
Skjöl Verkamannafélags Akureyrar eru varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands og á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Það sem er á Akureyri er óskráð en samkvæmt lauslegu yfirliti eru þar m.a. varðveitt eftirfarandi gögn:
Félagatal og árgjaldabók 1906-1913
Félagatal og árgjaldabók 1922-1927
Nafnaskrá 1915
Nafnaskrá með inntökubeiðnum 1927-1937
Fundargerðir 6/3 1910 til 2/4 1916
Fundargerðir 30/4 1916 til 11/12 1921
Fundargerðir 27/12 1922 til 24/1 1926
Nokkur fylgiskjöl reikninga 1919-1933