Saga

Héraðsskjalasafn Akureyrarbæjar og Eyjafjarðarsýslu var formlega stofnað 1. júlí 1969 skv. heimild í lögum um Þjóðskjalasafn Íslands frá 1947. Skjalavörður hafði þó verið fastráðinn til starfa frá ársbyrjun 1968 og hafði hann einnig starfað að undirbúningi fyrir stofnun safnsins frá því um sumarið 1967. Stofnendur safnsins voru Akureyrarbær og Eyjafjarðarsýsla. Akureyrarbær sá síðan um reksturinn með árlegum styrk frá sýslunni.

Með Samþykkt fyrir Héraðsskjalasafnið á Akureyri frá 1996 var nafninu breytt í Héraðsskjalasafnið á Akureyri því að frá þeim tíma áttu sveitarfélög úr Þingeyjarsýslu austan megin fjarðarins einnig aðild að safninu. Akureyrarbær sér um rekstur safnsins með fulltingi Akureyrarstofu en íbúatala aðildarsveitarfélaganna ræður fjárframlagi þeirra til safnsins. Að auki nýtur safnið árlegs styrkjar frá ríkinu, skv. 9. gr. laga nr. 77/2014, um opinber skjalasöfn. Í dag eru þessi sveitarfélög aðilar að safninu: Akureyri ásamt Grímsey og Hrísey, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit og Svalbarðsstrandarhreppur.

Safnið fékk árið 1968 húsnæði í nýbyggðu húsi Amtsbókasafnsins í  Brekkugötu 17, með um það bil 60 m2 geymslu í norðurhluta þriðju hæðar og skrifstofu á annarri hæð. Þetta húsnæði var strax of lítið og allt frá upphafi þurfti safnið að hafa geymslur annars staðar.  Þegar mest var hafði safnið þrjár slíkar geymslur.

Árið 2004 urðu þáttaskil í húsnæðismálum safnsins þegar byggt var við húsið í Brekkugötu 17. Þá fékk safnið um það bil 2500 metra af hillum í þremur geymslum, samtals um 356 m2. Með þessum breytingum var hægt að leggja niður geymslurnar úti í bæ og er safnið núna allt á einum stað. Aðalstarfsemi safnsins er á 3. hæð en þar eru tvær geymslur, lestrarsalur, skrifstofur og vinnurými starfsfólks en búningsaðstaða er í kjallara.  Sýningaraðstaða er sameiginleg með Amtsbókasafni í anddyri og veitingasal á fyrstu hæð. Alls er húsnæði Héraðsskjalasafnsins um 573 m2 en sameiginlegt rými safnanna er rúmir 500 m2 .

Héraðsskjalaverðir:

  • 1967-1974 - Árni Kristjánsson  f. 1915, d. 1974
  • 1974-1976 - Valdimar Gunnarsson  f. 1947
  • 1976-1984 - Þórhallur Bragason  f. 1948
  • 1984-2018 - Aðalbjörg Sigmarsdóttir f. 1952
  • 2018-         - Lára Ágústa Ólafsdóttir f. 1963