Fréttir

Erlingur Friðjónsson (1877-1962) kaupfélagsstjóri og alþingismaður

Þann 7. febrúar s.l. voru 140 ár frá því að Erlingur Friðjónsson fæddist en hann var bóndasonur frá Sandi í Aðaldal. Erlingur ólst upp á Sandi en fór svo í Ólafsdalsskóla og lauk þaðan prófi 1903 en átti síðan heimili á Akureyri. Á Akureyri vann hann fyrst við smíðar og daglaunavinnu en frá 1915 var hann forstöðumaður Pöntunarfélags verkamanna og síðan, er upp úr því var stofnað Kaupfélag verkamanna árið 1918, varð hann kaupfélagsstjóri þar. Gegndi hann því starfi til 1959. Erlingur setti sterkan svip á félagslíf á Akureyri. Á yngri árum var hann í Ungmennafélagi Akureyrar og gegndi hann þar formennsku um tíma og var héraðsstjóri ungmennafélaganna í Norðlendingafjórðungi. Hann var um skeið formaður Verkamannafélags Akureyrar, Verkalýðsfélags Akureyrar og forseti Verkalýðssambands Norðurlands. Einnig átti hann sæti í stjórn Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins. Formaður Byggingarfélags verkamanna á Akureyri var hann um langan tíma. Hann átti sæti í bæjarstjórn Akureyrar óslitið í 31 ár, frá 1915 til 1946 og var þingmaður Akureyrarkaupstaðar 1927–1931.