Fréttir

150 ára gömul dagbókarfærsla

Í dag er heiður himinn og sólin skín, en sama dag fyrir 150 árum var veðrið ekki eins gott.   Sveinn Þórarinsson amtsskrifari á Möðruvöllum skráði 25. mars 1863 í dagbók sína eftirfarandi: "Norðan drífa og leiðinlegt veður. Ég innfærði í KB umboðsins. Séra Þórður yfirheyrði hér börn. Ólafur á Reistará kom um kvöldið með veðleyfi frá Jóni á Skriðulandi. Ólafur gisti hjá mér, var drukkinn".

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna 8. mars - skjöl kvenfélaga og félaga kvenna

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars er ekki úr vegi að vekja athygli á skjölum kvenna í safninu. Hér er því birtur listi yfir þau félög kvenna sem skilað hafa sínum skjölum til Héraðsskjalasafnsins á Akureyri. Nánari upplýsingar um hvaða skjölum hvert félag hefur skilað má fá með því að fara í skjalaskrár hér til vinstri á síðunni, því næst í einkaskjöl og þá í félög og blasir þá við listi yfir þau skjöl sem lokið hefur verið við að ganga frá og skrá í safnið. Auk þess má einnig finna í safninu skjöl frá einstaklingum og þar eiga nokkrar konur sín einkaskjalasöfn, sem eru þó því miður mun færri en einkaskjalasöfn karla.