28.12.2012
Í síðustu frétt ársins verða birt 3 jólakort í eigu Héraðsskjalasafnsins á Akureyri og er þar um að ræða
jólakort skáldanna Heiðreks Guðmundssonar, Kristjáns frá Djúpalæk og Rósbergs G. Snædal. Þeir hafa haft fyrir sið að yrkja
vísu til að setja með í jólakveðjurnar til skáldbræðra sinna. Hér er einungis um sýnishorn að ræða en fleiri kort er
hægt að fá að sjá á safninu.
21.12.2012
Einar Kristjánsson var fæddur að Hermundarfelli í Þistilfirði 26. október árið 1911. Hann gekk í farskóla sveitarinnar og
síðar í unglingaskóla í Lundi í Öxarfirði og einn vetur í Reykholti í Borgarfirði og annan á Hvanneyri.
Einar kvæntist Guðrúnu Kristjánsdóttur frá Holti í Þistilfirði árið 1937. Þau bjuggu fyrst á Hermundarfelli en
síðar reistu þau nýbýlið Hagaland og bjuggu þar frá 1942 til 1946 er þau fluttu til Akureyrar þar sem þau bjuggu upp frá
því. Þeim varð fimm barna auðið. Einar var lengst af húsvörður við Barnaskóla Akureyrar, vinsæll og velmetinn af samstarfsfólki
og nemendum.
14.12.2012
Kristján var fæddur árið 1916 að Djúpalæk í Skeggjastaðahreppi. Sem barn og unglingur sinnti hann hefðbundnum sveitastörfum.
Veturinn 1936 – 1937 stundaði Kristján nám við Eiðaskóla í Eiðaþinghá, þá tvítugur að aldri.
Haustið 1938 fór hann í Menntaskólann á Akureyri og var þar fram til vors að hann hætti skólagöngu. Á Eiðum hafði
Kristján kynnst heimasætunni frá Staðartungu í Hörgárdal, Unni Friðbjarnardóttur, sem hann kvæntist og bjó með til
dauðadags.
07.12.2012
Kristín Sigfúsdóttir var fædd á Helgastöðum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði 13. júlí 1876. Kristín var vel gefin
og bókhneigð og las allt sem hún kom höndum yfir og hafði á fermingaraldri náð að læra að miklu leyti að lesa og skilja
Norðurlandamálin. Hneigðist hún snemma að því að semja sjálf vísur, kvæði og smásögur, hnoðaði saman fyrstu
vísur sínar 4-5 ára gömul og þegar á yngri árum orti hún mikið af tækifærisljóðum, m.a. eftirmælum, sem
hún var mikið beðin um og skiptu líklega hundruðum. En næst huga hennar mun hafa staðið að semja leikrit.