Kristín Sigfúsdóttir var fædd á Helgastöðum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði 13. júlí 1876. Kristín var vel gefin og bókhneigð og las allt sem hún kom höndum yfir og hafði á fermingaraldri náð að læra að miklu leyti að lesa og skilja Norðurlandamálin. Hneigðist hún snemma að því að semja sjálf vísur, kvæði og smásögur, hnoðaði saman fyrstu vísur sínar 4-5 ára gömul og þegar á yngri árum orti hún mikið af tækifærisljóðum, m.a. eftirmælum, sem hún var mikið beðin um og skiptu líklega hundruðum. En næst huga hennar mun hafa staðið að semja leikrit.
Kristín varð 1903 húsfreyja á hálfri jörðinni í Skriðu í Saurbæjarhreppi en 1908 fluttist fjölskyldan að Kálfagerði í sömu sveit og við þann bæ var Kristín oftast kennd.
Árið 1920 fékk hún vitjun ókunns manns, sem kvað hana eiga að skrifa bók sem heita átti Tengdamamma og skrifaði hún það leikrit á þeim vetri. Var það næsta ár leikið víða um Eyjafjörð og á Akureyri við mikla aðsókn og í Reykjavík, prentað og gefið út, og fylgdu fleiri verk á eftir.
Árið 1930 fluttist fjölskyldan til Akureyrar en það var ekki fyrr en 1937 sem Kristín hófst aftur handa við ritstörf að ráði. Mikla alúð lagði hún í leikritið Melkorku, sem varð hennar síðasta stóra skáldverk. Einnig ritaði hún á síðustu árum sínum bernskuminningar og sagnir, sem hún heyrði í æsku.
Kristín samdi bæði leikrit, sögur og ljóð. Sumt af því var gefið út, s.s. söngleikurinn Árstíðirnar (1920) og skáldsagan Gestir (1925), og annað birt í tímaritum. Flest ljóð hennar birtust í fyrsta sinn á prenti þegar ritsafn hennar var gefið út árið 1949. Ekki eru nema um 30 ljóð í ritsafninu en vitað er að hún fargaði miklu af æskuljóðum sínum og sögum, þ. á m. voru mörg erfiljóðin.
Á Akureyri bjó Kristín fyrst í Brekkugötu 19. Frá 1937 til 1970 bjó hún í Eyrarlandsvegi 3 (Sigurhæðum) en síðan í Munkaþverárstræti 3 og í Munkaþverárstræti 19 frá 1947 til æviloka.
Kristín lést þann 28. september 1953.
Kristínarsjóður var stofnaður árið 1976, árið sem Kristín hefði orðið 100 ára. Tilgangur sjóðsins er að heiðra minningu Kristínar skáldkonu og markmið hans er að verðlauna nemendur í Hrafnagilsskóla, sem náð hafa góðum árangri í fagurri notkun móðurmálsins. Forgöngu að stofnun sjóðsins hafði Laufey Sigurðardóttir frá Torfufelli en kvenfélög og einstaklingar lögðu þar einnig hönd á plóg.
Imba gamla
Aumingja Imba gamla
var áttræð kerling á sveit
úfin og örg í skapi
af ónýtri farsældarleit.
Mér finnst það nú hreinasta furða
hvað fjörgamalt skarið vann
hún mokaði og mjólkaði í fjósi
á milli þess sat hún og spann.
Hún lærði víst aldrei að lesa
en löngun til fróðleiks þó bar
við úrlausnarefnum þyngstu
hún átti margt kynlegt svar.
(Ljóðið er alls 31 erindi)