Fréttir

Verkamannafélag Akureyrar var fyrsta eyfirska félagið í ASÍ

Laugardaginn 12. mars var þess minnst með ýmsum hætti að 100 ár eru liðin frá stofnun Alþýðusambands Íslands. Samkvæmt fyrstu lögum félagsins var tilgangur sambandsins að koma á samstarfi meðal íslenskra alþýðumanna á grundvelli jafnaðarstefnunnar, efla og bæta líkamlegan og andlegan hag alþýðu og kjósa menn úr sambandinu til opinberra starfa fyrir bæjar- og sveitarfélög. Stofnfélög ASÍ voru sjö, öll úr Reykjavík og Hafnarfirði. Fyrsta eyfirska félagið til þess að óska eftir inngöngu í ASÍ var Verkamannafélag Akureyrar og var það í árslok 1917.

8. mars 1866

Eftirfarandi skrifaði Sveinn Þórarinsson amtsskrifari í dagbók sína 8. mars 1866:   Logn og frostlaust veður blítt.  Nú er landfastur ís fyrir öllu norðurlandi og hefir sumstaðar orðið töluverður höfrungafengur. Finsen vitjaði mín og var ég aumur.  Austan póstur kom loksins.  BF Sigurbirni.   Þegar Sveinn Þórarinsson skrifaði þessar línur bjó hann á Akureyri, í því húsi sem seinna átti eftir að vera þekkt sem Nonnahús enda umræddur Sveinn faðir Nonna.  Finsen, sem Sveinn talar um, var Jón Finsen héraðslæknir í austurhéraði norðuramtsins.  BF stendur fyrir bréf frá.