Fréttir

Eyfirsk skjöl birtast á nýjum vef

Snemma árs 2016 hlaut Héraðsskjalasafnið á Akureyri styrk frá Þjóðskjalasafni Íslands til að ljósmynda elstu gjörðabækur sveitarfélaga á starfssvæði sínu.  Að þeirri vinnu lokinni hlaut safnið aftur samskonar styrk á vordögum 2017 til að vinna myndirnar og skrá þær fyrir birtingu á vef. Þar að auki hlaut safnið ásamt Héraðsskjalasafni Þingeyinga og Héraðsskjalasafni Árnesinga styrk til að miðlunar og þróunar á vefviðmóti fyrir skjalavefinn. Tenging inn á skjalavef Héraðsskjalasafnsins á Akureyri er hér efst til hægri á síðunni

Sýningin Hús og heimili opnuð á Norræna skjaladaginn 11. nóvember

Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum sameinuðust árið 2001 um að halda árlegan kynningardag, annan laugardag í nóvember. Þriðja hvert ár er sameiginlegt þema en þess á milli hefur hvert land sitt þema. Eitt markmiða norræna skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfnin séu tryggir vörslustaðir skjala af hvaða tagi sem er. Fundargerðabækur, bréf, myndir og fleiri skjöl af ýmsu tagi eiga erindi á skjalasöfn. Því er fólk hvatt til að hafa samband við næsta héraðsskjalasafn, eða Þjóðskjalasafn, ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað gera á við, eða vill koma í örugga vörslu.