Fréttir

Ráðstefna Félags héraðsskjalavarða á Íslandi

Dagana 23. og 24. september sóttu skjalaverðir safnsins árlega ráðstefnu Félags héraðsskjalavarða á Íslandi en hún var haldin i Kópavogi að þessu sinni, nánar til tekið í salnum á 3. hæð í stúkunni við Kópavogsvöll. Á ráðstefnunni voru nokkrar málstofur, þar sem tekið var á ýmsum þáttum í daglegu starfi safnanna. Má þar nefna staðlaða skráningu skjalasafna og reglur um aðgengi að þeim, nýlegar útgáfur skjalasafna bæði prentuð rit og á vef, samstarf við sögufélög og klasasamstarf héraðsskjalasafnanna um átak í söfnun skjala og margt fleira. Þetta er þriðja ráðstefnan sem félagið heldur, árið 2011 var hún í Reykjavík og árið 2012 var hún haldin á Akureyri.  Þessi ráðstefna er vettvangur fyrir starfsmenn skjalasafnanna að kynnast og efla samstarf sín á milli. Einnig til að árétta mikilvægi starfs þeirra fyrir sveitarfélögin, bæði hið stjórnsýslulega hlutverk safnanna sem snýr að varðveislu skjala sveitarfélaganna og veitingu aðgengis að þeim og hið menningarlega hlutverk sem snýr að eflingu á þekkingu á sögu viðkomandi héraða. Kópavog heimsóttu af þessu tilefni fulltrúar frá 17 héraðsskjalasöfnum af öllu landinu, en söfnin eru nú 20 talsins.

Afmælisdagur Akureyrarkaupstaðar er í dag - höfuðdag

Í dag er Höfuðdagurinn en 29. ágúst hefur heitið svo frá því að Heródes lét hálshöggva Jóhannes skírara að áeggjan konu sinnar og stjúpdóttur árið 31 e.kr. Gömul trú er sú að veðurfar muni breytast með Höfuðdegi og segir svo frá því á einum stað: „Bregður þá vanalega veðráttu og helzt þá hið sama í 20 daga." Akureyrarkaupstaður er 151 árs í dag og er þess skemmst að minnast að mikil hátíðahöld voru á Akureyri í tilefni af 150 ára afmælinu árið 2012. Hægt er að rifja upp eldri fréttir hér á síðunni sem birtust vikulega af tilefni afmælisins og einnig er enn hægt að skoða síðuna https://www.facebook.com/Akureyri150 en þar má sjá margt fróðlegt og skemmtilegt um afmælisárið.

Eyjafjörður fyrir 70 árum

Enn er haldið áfram undir yfirskriftinni ,,Skjöl eru skemmtileg“.  Í ágústmánuði eru það skjöl frá árinu 1943 sem eru til sýnis á 1. hæðinni en fyrir valinu urðu námsbækur Pálma Brynjólfssonar frá Teigi.  Pálmi var fæddur 26. febrúar 1931 en lést 2. apríl 1945, fjórtán ára að aldri. Teigur var í Hrafnagilshreppi en skólaárið 1943-44 var kennt á tveimur stöðum í hreppnum, í Hvammi fyrir börn í nyrðri hlutanum og í Hólshúsum fyrir börnin sunnar. Sigurður Gunnar Jóhannesson, seinna bóndi í Litla-Hvammi og Hrafnagili, annaðist kennsluna og Jón Kristjánsson frá Espigrund kenndi söng.  Kennt var annan hvorn dag á hvorum stað en skólahald hófst 14. og 15. október og lauk 17. og 18. apríl. 

Sólmánuður og lækningajurtir

Samkvæmt gömlu íslensku tímatali hófst sólmánuður á mánudagi í 9. viku sumars, eða á tímabilinu 18. til 24. júní.  Jónsmessuna ber því upp á fyrsta dag sólmánaðar þetta árið. Björn Halldórsson í Sauðlauksdal sagði m.a. um sólmánuð í riti sínu Atli, sem út kom í Hrappsey árið 1780, að fyrst í sólmánuði færu menn á grasafjall og söfnuðu jurtum sem ætlaðar væru til lækninga.

Kvennasöguganga um Oddeyrina 19. júní

Í tilefni kvenréttindadagsins þann 19. júní verður boðið upp á fyrstu kvennasögugönguna um Oddeyrina. Saga kvenna á eyrinni er mörgum hulin og því gefst hér kjörið tækifæri til að fá innsýn í líf og störf þeirra en konur á eyrinni sáu t.d. um ýmiskonar rekstur um aldarmótin 1900 og fram á miðja 20. öld. Örn Ingi Gíslason mun leiða gönguna og varpa ljósi á líf kvenna og ýmsar uppákomur, hefðir og venjur sem ríktu á eyrinni.

Alþjóðlegi skjaladagurinn 9. júní

Sunnudaginn 9. júní er Alþjóðlegi skjaladagurinn (International Archives Day) haldinn hátíðlegur í sjötta sinn. Skjalasöfn um allan heim taka þátt með einum eða öðrum hætti og af þessu tilefni verður í dag, föstudaginn 6. júní kl. 14-16, opið hús í eftirtöldum héraðsskjalasöfnum:

Skjöl eru skemmtileg

Á síðasta ári var því fagnað með ýmsum hætti að 150 ár voru liðin frá því að Akureyri fékk kaupstaðarréttindi. Í sannkölluðu afmælisskapi ákváðum við að halda áfram en horfa til safnsvæðisins alls og draga fram úr geymslum skjöl sem ættu afmæli þetta árið. Skjölin eru sýnd mánuð í senn, í sýningarkassa á 1. hæðinni undir yfirskriftinni Skjöl eru skemmtileg. Í janúar voru það 140 ára skjöl eða frá árinu 1873, í febrúar 130 ára skjöl, í mars 120 ára og nú í apríl eru það 110 ára skjöl. Meðal þess sem er í kassanum núna eru lög frá rjómabúi Svarfdæla, sveitarblaðið Tilraun úr Öngulsstaðahreppi og blaðið Lundur sem var handskrifað blað á Oddeyri.

150 ára gömul dagbókarfærsla

Í dag er heiður himinn og sólin skín, en sama dag fyrir 150 árum var veðrið ekki eins gott.   Sveinn Þórarinsson amtsskrifari á Möðruvöllum skráði 25. mars 1863 í dagbók sína eftirfarandi: "Norðan drífa og leiðinlegt veður. Ég innfærði í KB umboðsins. Séra Þórður yfirheyrði hér börn. Ólafur á Reistará kom um kvöldið með veðleyfi frá Jóni á Skriðulandi. Ólafur gisti hjá mér, var drukkinn".

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna 8. mars - skjöl kvenfélaga og félaga kvenna

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars er ekki úr vegi að vekja athygli á skjölum kvenna í safninu. Hér er því birtur listi yfir þau félög kvenna sem skilað hafa sínum skjölum til Héraðsskjalasafnsins á Akureyri. Nánari upplýsingar um hvaða skjölum hvert félag hefur skilað má fá með því að fara í skjalaskrár hér til vinstri á síðunni, því næst í einkaskjöl og þá í félög og blasir þá við listi yfir þau skjöl sem lokið hefur verið við að ganga frá og skrá í safnið. Auk þess má einnig finna í safninu skjöl frá einstaklingum og þar eiga nokkrar konur sín einkaskjalasöfn, sem eru þó því miður mun færri en einkaskjalasöfn karla.

Spítali verður að skíðahóteli

Fyrir 50 árum eða árið 1963 bar 22. febrúar upp á föstudag og þannig er það einnig árið 2013! Þennan föstudag, 22. febrúar 1963 var fréttatilkynning í Íslendingi um veitingasölu í Hlíðarfjalli. Skíðaráð Akureyrar hóf þá helgina áður „veitingasölu um helgar í hinum glæsilega skíðaskála í Hlíðarfjalli“. Skálinn var þó ekki alveg fullbúinn til hótelhalds þá, eins og hugmyndin var að nýta hann í framtíðinni.