Fyrir skömmu komu hingað systur og afhentu skjöl ömmu sinnar, Önnu Maríu Ísleifsdóttur. Anna María er ágætt dæmi um einstakling sem þarf að hafa svolítið fyrir að finna í manntalsgögnum því þar er hún ýmist skrifuð Anna eða María og stundum undir báðum nöfnum.
Anna María fæddist 1883 og þegar hún var á fjórða ári lést faðir hennar, þá bóndi á Hrappstöðum í Kræklingahlíð. Móðir hennar, Rósa Ólafsdóttir, bjó eitthvað áfram á Hrappstöðum en síðar hjá dóttur sinni á Hesjuvöllum. Nokkur af systkinum Önnu Maríu fluttist til Kanada og mamma hennar flutti þangað líka.
Anna María fór í fóstur til Önnu Tómasdóttur sem átti og rak Hótel Oddeyri á Akureyri. Seinna réðist ungur piltur, Frímann Frímannsson, í vinnu á Hótel Oddeyri og ekki er að spyrja að ástinni því þau Anna María og Frímann giftust 5. október 1908. Frimann var ættaður af Skagaströnd og fór í Möðruvallaskóla og gerðist svo vindlari og kaupmaður á Akureyri.
Þau Anna María og Frímann eignuðust börnin Önnu f. 1908, Unni f. 1910, Ingunni f. 1913 og Frímann f. 1919. Frímann kaupmaður lést árið 1920.
Eftir lát Frímanns var Anna María áfram á Akureyri, allt til 1944 er hún fluttist að Heiðarbæ í Þingvallasveit. Anna María lést í Reykjavík 1953.
Skjalasafn Önnu Maríu samanstendur að mestu leyti af bréfum og ljósmyndum. Bréfin eru bæði frá fólki Önnu á Íslandi og Kanada og myndirnar eru það einnig.
Hjónin Sigríður Ísleifsdóttir og Vilhjálmur Jónasson. Þau bjuggu á Hesjuvöllum 1900-1933. Sigríður var systir Önnu Maríu.