20.08.2014
Vegna jarðskjálftanna í og við Bárðarbungu grípum við niður í dagbók Ólafs Jónssonar úr ferð hans og
Gunnbjörns Egilssonar um Ódáðahraun í ágúst 1940.
6. ágúst
Við vöknuðum kl. 2 og er þá ennþá hálfrokkið. Ferðbúnir erum við Kl 4. Veðrið er prýðilegt kyrt og
bjart. Þó er ofurlítill þokuslæðingur á Herðubreið, en Kverkfjöllin eru hrein, sömuleiðis Snæfellið.
Við förum fyrst suður með vötnunum og síðan suður í hraunið, stefnum milli Lofts og Upptyppinga ... Smám saman verða hraunhólarnir
strjálli en sandflesjurnar stækka og vikurinn eykst og þegar komið er suður á móts við Hlaupfell göngum við á óslitnum þykkum
vikri. Þá tökum við af okkur þungu gönguskóna en setjum upp létta skó ... og okkur skilar vel suður vikrana í áttina til
Vaðöldunnar.
31.01.2014
Myndin hér fyrir neðan er á póstkorti útgefnu af Jóhanni Ragúelssyni á Akureyri og sýnir eins og stendur í texta: Cookery School
at „Caroline Rest“ Akureyri. Póstkortið fylgdi einkaskjalasafni sem verið var að ganga frá til geymslu fyrir skemmstu.
George Schrader var auðugur þýskur maður, búsettur í Bandaríkjunum. Hann varði auði sínum til líknarmála og var
sérstakur velgjörðarmaður Akureyringa. Eitt af því sem hann tók sér fyrir hendur var að koma á fót matreiðslunámskeiði
fyrir ungar stúlkur í Caroline Rest, gistihúsi því sem hann hafði látið byggja fyrir hesta og reiðmenn sem til bæjarins komu. (Sjá
Steindór Steindórsson: Akureyri: Höfuðborg hins bjarta norðurs. 1993).
24.06.2013
Samkvæmt gömlu íslensku tímatali hófst sólmánuður á mánudagi í 9. viku sumars, eða á tímabilinu 18. til 24.
júní. Jónsmessuna ber því upp á fyrsta dag sólmánaðar þetta árið. Björn Halldórsson í
Sauðlauksdal sagði m.a. um sólmánuð í riti sínu Atli, sem út kom í Hrappsey árið 1780, að fyrst í
sólmánuði færu menn á grasafjall og söfnuðu jurtum sem ætlaðar væru til lækninga.
22.02.2013
Fyrir 50 árum eða árið 1963 bar 22. febrúar upp á föstudag og þannig er það einnig árið 2013! Þennan föstudag, 22.
febrúar 1963 var fréttatilkynning í Íslendingi um veitingasölu í Hlíðarfjalli.
Skíðaráð Akureyrar hóf þá helgina áður „veitingasölu um helgar í hinum glæsilega skíðaskála í
Hlíðarfjalli“. Skálinn var þó ekki alveg fullbúinn til hótelhalds þá, eins og hugmyndin var að nýta hann í
framtíðinni.
25.01.2013
Í tilefni bóndadags birtist hér kvæðið Þorrabragur. Höfundur þess er Benedikt Valdemarsson, en ekki er vitað hvar eða hvenær
það var flutt, líklega þó í Saurbæjar- eða Öngulsstaðahreppi. Kvæðið er í einkaskjalasafni Aðalgeirs
Ólafs Jónssonar, sem lengst af bjó í Hólum í Saurbæjarhreppi. Skrá yfir skjalasafn Ólafs sem varðveitt er á
Héraðsskjalasafninu má sjá hér.
Þorrabragur
Velkomnir hingað góðir gestir,
sem gátuð mætt hér og eru sestir.
Þið lagt hafið á ykkur langa göngu,
sem lokið gæti með puði ströngu.
28.12.2012
Í síðustu frétt ársins verða birt 3 jólakort í eigu Héraðsskjalasafnsins á Akureyri og er þar um að ræða
jólakort skáldanna Heiðreks Guðmundssonar, Kristjáns frá Djúpalæk og Rósbergs G. Snædal. Þeir hafa haft fyrir sið að yrkja
vísu til að setja með í jólakveðjurnar til skáldbræðra sinna. Hér er einungis um sýnishorn að ræða en fleiri kort er
hægt að fá að sjá á safninu.
21.12.2012
Einar Kristjánsson var fæddur að Hermundarfelli í Þistilfirði 26. október árið 1911. Hann gekk í farskóla sveitarinnar og
síðar í unglingaskóla í Lundi í Öxarfirði og einn vetur í Reykholti í Borgarfirði og annan á Hvanneyri.
Einar kvæntist Guðrúnu Kristjánsdóttur frá Holti í Þistilfirði árið 1937. Þau bjuggu fyrst á Hermundarfelli en
síðar reistu þau nýbýlið Hagaland og bjuggu þar frá 1942 til 1946 er þau fluttu til Akureyrar þar sem þau bjuggu upp frá
því. Þeim varð fimm barna auðið. Einar var lengst af húsvörður við Barnaskóla Akureyrar, vinsæll og velmetinn af samstarfsfólki
og nemendum.
14.12.2012
Kristján var fæddur árið 1916 að Djúpalæk í Skeggjastaðahreppi. Sem barn og unglingur sinnti hann hefðbundnum sveitastörfum.
Veturinn 1936 – 1937 stundaði Kristján nám við Eiðaskóla í Eiðaþinghá, þá tvítugur að aldri.
Haustið 1938 fór hann í Menntaskólann á Akureyri og var þar fram til vors að hann hætti skólagöngu. Á Eiðum hafði
Kristján kynnst heimasætunni frá Staðartungu í Hörgárdal, Unni Friðbjarnardóttur, sem hann kvæntist og bjó með til
dauðadags.
07.12.2012
Kristín Sigfúsdóttir var fædd á Helgastöðum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði 13. júlí 1876. Kristín var vel gefin
og bókhneigð og las allt sem hún kom höndum yfir og hafði á fermingaraldri náð að læra að miklu leyti að lesa og skilja
Norðurlandamálin. Hneigðist hún snemma að því að semja sjálf vísur, kvæði og smásögur, hnoðaði saman fyrstu
vísur sínar 4-5 ára gömul og þegar á yngri árum orti hún mikið af tækifærisljóðum, m.a. eftirmælum, sem
hún var mikið beðin um og skiptu líklega hundruðum. En næst huga hennar mun hafa staðið að semja leikrit.
30.11.2012
Jórunn Ólafsdóttir frá Sörlastöðum er ein af þeim fjölmörgu skáldum sem búið hafa á Akureyri. Hún
fékkst töluvert við ritstörf og birti ljóð, sögur og greinar í timaritum og blöðum. Ein bók kom út eftir hana,
ljóðabókin Beitilyng, árið 1973.