Jórunn Ólafsdóttir frá Sörlastöðum er ein af þeim fjölmörgu skáldum sem búið hafa á Akureyri. Hún fékkst töluvert við ritstörf og birti ljóð, sögur og greinar í timaritum og blöðum. Ein bók kom út eftir hana, ljóðabókin Beitilyng, árið 1973.
Jórunn Ólafsdóttir fæddist á Sörlastöðum í Fnjóskadal 8. maí 1920. Hún ólst þar upp hjá foreldrum sínum og bjó hjá þeim að undantöldum námsárum í Gagnfræðaskóla Akureyrar 1939-42 uns hún flutti eftir lát móður sinnar til Akureyrar með föður sínum og bróður árið 1956.
Jórunn vann fyrst í Skóverksmiðjunni Iðunni og síðar við innheimtu og fleiri störf fyrir Dag o.fl. um 15 ára skeið, en dvaldist löngum á Kristneshæli vegna veikinda.
Á Akureyri bjó Jórunn fyrstu 2 árin í Þingvallastræti 6, en 1958 flytur hún í Brekkugötu 19 og á þar lögheimili til 1973 þó hún dveljist löngum á Kristnesi. Árið 1974 býr Jórunn í Munkaþverárstræti 3 en 1982 er hún komin í Brekkugötu 21 og er þar til 1990. Frá 1991 og til dánardags 1. febr. 2000 á hún lögheimili sitt í Brekkugötu 30. Síðasta áratug ævi sinnar var hún þó heimilsföst á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík.
Jórunn var í mörg ár formaður Sjálfsvarnar, félags sjúklinga á Kristneshæli og tók mikinn þátt í félagsstarfi SÍBS. Þá lagði hún bindindismálum lið og gegndi trúnaðarstörfum fyrir Dýraverndunarfélag Akureyrar.
Á Héraðsskjalasafninu á Akureyri er að finna nokkuð af handritum Jórunnar, bæði í einkaskjalasöfnum og einnig í safni frá Heilsuhælinu í Kristnesi.
Þar sem aðventan hefst nú senn eru hér birt 3 erindi úr kvæði Jórunnar, Jólin heima.
Ég man það kvöld, er lítið kertaljós
mér ljóma bar, sem fögur himinsól.
Í hjarta mér það græddi gleðirós
og gaf mér friðinn dýrsta, er lífið ól.
Ég minnist þess, er lýsti vakan löng,
hve léttist brún og mýktist rödd og fas,
er vinahópur jólasálma söng
og síðan pabbi helgan boðskap las.
Og móðir mín um bæ sinn glöð þá gekk
og gjafir veitti og kveikti ljós við ljós,
að launum bros og fyllstu þökk hún fékk
- þá fannst mér gróa í hverju spori rós.
Jórunni voru bernskuslóðirnar í Fnjóskadal kærar og var hún jarðsett í Illugastaðakirkjugarði. Hér má sjá handrit að kvæði sem hún orti 1966 þegar hún kom að Sörlastöðum, sem þá voru komnir í eyði.