Fróðleikur

Magnús Sigurðsson (1847-1925) bóndi og kaupmaður á Grund

Magnús Sigurðsson fæddist að Torfufelli í Eyjafirði í júlí 1847 eða fyrir rúmum 170 árum síðan. Hann  ólst upp í skjóli afa síns og ömmu í Öxnafelli. Þegar Magnús var 18 ára hóf hann smíðanám að Möðruvöllum í Eyjafirði en samhliða smíðanáminu smíðaði hann ýmsa nytjahluti og seldi nágrönnum.  Áður en Magnús lauk smíðanáminu var hann farinn að huga að sjómennsku og útgerð.  Hann réði sig í skipsrúm og lærði sjómannafræði og 1871 keypti hann helming í skútunni Akureyri og við tók sjómennska á eigin skipi. Magnús varð fljólega afhuga sjómennskunni en hugur hans stefndi að búskap. Magnús hóf búskap á stórbýlinu Grund vorið 1874, fyrst í stað á hálfri jörðinni en frá 1887 á henni allri.

Guðmundur Benediktsson (1907-2001), frá Breiðabóli Svalbarðsströnd

Á þessu ári eru 110 ár liðin síðan Guðmundur Benediktsson fæddist.  Guðmundur er jafnan kenndur við Breiðaból á Svalbarðsströnd en þar ólst hann upp og bjó síðan með systkinum sínum til 1962.  Guðmundur fór í bændaskólann á Hvanneyri og útskrifaðist þaðan árið 1929. Sem ungur maður gekk Guðmundur í Ungmennafélagið Æskan og var í stjórn þess í 25 ár.  Hann var lengi fulltrúi Æskunnar á þingum UMSE og oft forseti þeirra þinga. Guðmundur var í stjórn UMSE í 7 ár og var oft fulltrúi á þingum UMFÍ.

Anna Kristinsdóttir (1897-1982) húsfreyja Fellsseli í Kinn

Anna fæddist á Akureyri 1897 eða fyrir 120 árum síðan. Foreldrar hennar voru Jónína Pálsdóttir (1878-1947) og Kristinn Jónsson (1876-1921) en þau voru ógift og áttu ekki frekari samleið. Anna fór í fóstur sex mánaða gömul að Æsustaðagerði í Saurbæjarhreppi, til hjónanna Ingibjargar Tómasdóttur (1846-1919) og Sigfúsar Sigfússonar (1846-1919). Sigfús og Ingibjörg eignuðust ekki börn en ólu upp fimm börn og var Anna Kristinsdóttir eitt þeirra. Anna var hjá fósturforeldrum sínum á meðan þau lifðu og fór svo í vinnumennsku á bæjum í Eyjafirði. Eftir það fór hún að Fellsseli í Kinn en þar bjó ekkjumaðurinn Kristján Ingjaldsson, ásamt fimm ára dóttur sinni og tengdamóður.Anna og Kristján gengu í hjónaband í apríl 1930 og bjuggu í Fjallsseli til 1966. Þau eignuðust ekki börn en auk dóttur Kristjáns ólu þau upp dreng.

Rósa Einarsdóttir (1882-1965) frá Stokkahlöðum

Sókn og vörn þau sífellt herða,sést það best á nýjum blöðum.Yfirvaldið er að verðaundir Rósu á Stokkahlöðum. Vísur verða til af ýmsu tilefni en þessi varð til árið 1936 og það var Davíð Jónsson hreppstjóri á Kroppi sem orti. Sögupersónurnar voru Sigurður Eggerz sýslumaður og Rósa Einarsdóttir á Stokkahlöðum. Rósa Einarsdóttir fæddist í Gnúpufelli í mars 1882 eða fyrir 135 árum síðan. Hún var dóttir Einars Sigfússonar og Guðríðar Brynjólfsdóttur en Einar var sonur hjónanna í Gnúpufelli. Einar og Guðríður bjuggu í Hrísum 1887-1891. Frá 1891 bjuggu þau á Stokkahlöðum en Einar lést 1926 og Guðríður bjó áfram til 1930 er börn þeirra, Rósa, Aldís og Bjarni tóku við búskapnum.

Hólmfríður M. Jónsdóttir (1907-1986) magister

Hólmfríður Margrét Jónsdóttir fæddist á Akureyri 5. maí 1907. Móðir hennar var ættuð úr Hörgárdalnum og var ekkja með tvö börn á Akureyri. Faðirinn var skipstjóri frá Ísafirði. Foreldrar Hólmfríðar gengu ekki í hjónaband og móðirin var ein með börnin sín þrjú um skeið á Akureyri en þau fluttu svo í Mývatnssveit þar sem Hólmfríður ólst upp. Hólmfríður fór í Alþýðuskólann á Laugum í Reykjadal 1925-27 og síðan í Kennaraskólann og lauk þaðan prófi 1929. Hún tók gagnfræðapróf á Akureyri 1930 og stúdentspróf í Reykjavík 1933 en eftir það lá leiðin til Noregs. Hólmfríður las norsku, þýsku og ensku við Oslóarháskóla og varð cand.mag í þremur tungumálum 1948. Á námsárum sínum í Noregi vann hún fyrir sér með kennslu og til þess að auðvelda sér leið að námsstofnunum tók Hólmfríður norskt kennarapróf.

Erlingur Friðjónsson (1877-1962) kaupfélagsstjóri og alþingismaður

Þann 7. febrúar s.l. voru 140 ár frá því að Erlingur Friðjónsson fæddist en hann var bóndasonur frá Sandi í Aðaldal. Erlingur ólst upp á Sandi en fór svo í Ólafsdalsskóla og lauk þaðan prófi 1903 en átti síðan heimili á Akureyri. Á Akureyri vann hann fyrst við smíðar og daglaunavinnu en frá 1915 var hann forstöðumaður Pöntunarfélags verkamanna og síðan, er upp úr því var stofnað Kaupfélag verkamanna árið 1918, varð hann kaupfélagsstjóri þar. Gegndi hann því starfi til 1959. Erlingur setti sterkan svip á félagslíf á Akureyri. Á yngri árum var hann í Ungmennafélagi Akureyrar og gegndi hann þar formennsku um tíma og var héraðsstjóri ungmennafélaganna í Norðlendingafjórðungi. Hann var um skeið formaður Verkamannafélags Akureyrar, Verkalýðsfélags Akureyrar og forseti Verkalýðssambands Norðurlands. Einnig átti hann sæti í stjórn Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins. Formaður Byggingarfélags verkamanna á Akureyri var hann um langan tíma. Hann átti sæti í bæjarstjórn Akureyrar óslitið í 31 ár, frá 1915 til 1946 og var þingmaður Akureyrarkaupstaðar 1927–1931.

Páll Jónsson Árdal (1857-1930) skáld og kennari

Páll Jónsson Árdal fæddist að Helgastöðum í Eyjafirði 1. febrúar 1857 eða fyrir rúmum 160 árum síðan. Páll ólst upp á Helgastöðum og fór síðan í Gagnfræðaskólann á Möðruvöllum og tók þaðan próf 1882. Strax og Páll hafði lokið námi sínu á Möðruvöllum fór hann að fást við kennslu en stundaði um langt skeið jafnframt vegagerð á sumrum. Hann kenndi fyrst austur á Fljótsdalshéraði en frá 1883 til 1926 við Barnaskólann á Akureyri. Páli var mjög eiginlegt að fræða og kryddaði hann gjarnan kennsluna og frásögn með sögum, bæði raunverulegum og þeim sem hann bjó til sjálfur um leið. Mörg stílsefni hans voru sögur, sem hann bjó til jafnóðum og börnin skrifuðu. Flestar væru þær um dýr og voru þær jafnan gerðar með það fyrir augum að vekja ást barnanna til dýranna og samúð með þeim því Páll var mjög mikill dýravinur.

Jakob Tryggvason (1907-99), orgelleikari og tónlistarkennari

Jakob Tryggvason fæddist að Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal 31. janúar 1907. Hann hóf nám í orgelleik við fermingaraldur í heimabyggð en fór seinna til Reykjavíkur og sótti einkatíma og var í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Jakob var ráðinn orgelleikari við Akureyrarkirkju 1941 og sinnti því starfi til 1945 er hann fór til framhaldsnáms í London. Þar var Jakob við nám í The Royal Academy of Music til ársins 1948. Frá þeim tíma var hann organleikari við Akureyrarkirkju óslitið til ársins 1986. Jakob var kennari og skólastjóri Tónlistarskóla Akureyrar frá 1950-1974 og stjórnaði Lúðrasveit Akureyrar um tuttugu ára skeið. Hann stjórnaði Lúðrasveit Barnaskóla Akureyrar um árabil og kenndi tónmennt við Oddeyrarskóla.

Jón Davíðsson (1837-1923) bóndi Litla-Hamri, Kroppi, Hvassafelli og Reykhúsum

Jón Davíðsson fæddist 7. janúar 1837 í Kristnesi í Eyjafirði. Foreldrar hans voru Davíð Jónsson og Sigríður Davíðsdóttir, bændur í Kristnesi 1830-40 og Litla-Hamri 1840-75. Jón Davíðsson bjó á Litla-Hamri 1875-79, á Kroppi 1879-89, í Hvassafelli 1889-1900 og í Reykhúsum 1900-02. Jón lést 8. maí 1923 í Reykhúsum.

Afhending 2016/86

Fyrir skömmu komu hingað systur og afhentu skjöl ömmu sinnar, Önnu Maríu Ísleifsdóttur. Anna María er ágætt dæmi um einstakling sem þarf að hafa svolítið fyrir að finna í manntalsgögnum því þar er hún ýmist skrifuð Anna eða María og stundum undir báðum nöfnum. Anna María fæddist 1883 og þegar hún var á fjórða ári lést faðir hennar, þá bóndi á Hrappstöðum í Kræklingahlíð. Móðir hennar, Rósa Ólafsdóttir, bjó eitthvað áfram á Hrappstöðum en síðar hjá dóttur sinni á Hesjuvöllum. Nokkur af systkinum Önnu Maríu fluttist til Kanada og mamma hennar flutti þangað líka.