Á þessu ári eru 110 ár liðin síðan Guðmundur Benediktsson fæddist. Guðmundur er jafnan kenndur við Breiðaból á Svalbarðsströnd en þar ólst hann upp og bjó síðan með systkinum sínum til 1962. Guðmundur fór í bændaskólann á Hvanneyri og útskrifaðist þaðan árið 1929.
Sem ungur maður gekk Guðmundur í Ungmennafélagið Æskan og var í stjórn þess í 25 ár. Hann var lengi fulltrúi Æskunnar á þingum UMSE og oft forseti þeirra þinga. Guðmundur var í stjórn UMSE í 7 ár og var oft fulltrúi á þingum UMFÍ.
Guðmundur var ákveðinn bindindismaður og var lengi formaður áfengisvarnarnefndar. Hann var í hreppsnefnd Svalbarðsstrandarhrepps, var forðagæslumaður, fjallskilastjóri og gangnaforingi og var sýslunefndarmaður um tíma.
Guðmundur var í stjórn Búnaðarfélags Svalbarðsstrandar og gjaldkeri félagsins í 17 ár. Hann var í sóknarnefnd Svalbarðssóknar og var hvatamaður um byggingu kirkjunnar sem byggð var og vígð í maí 1957.
Árið 1962 flutti Guðmundur til Svalbarðseyrar og vann eftir það hjá K.S.Þ. enda traustur samvinnumaður.
Yfirlit yfir skjalasafn Guðmundar má sjá hér