Dagana 1. - 30. júní var haldin sýning í tengslum við útkomu bókarinnar Saga Gagnfræðaskóla Akureyrar - Saga skóla í sextíu og sjö ár, 1930 til 1997. Sýnd voru um 15 skólaspjöld ásamt myndum úr skólastarfinu, fundargerðarbókum, skólablöðum, fylgiskjölum og fleiru úr sögu skólans. Sýningin var samstarfsverkefni Amtsbókasafns, Héraðsskjalasafns og ritnefndar bókarinnar.
Auk þess að segja sögu skólans eru í bókinni viðtöl við gamla nemendur, frásagnir af skólaferðalögum, gamansögur af nemendum og kennurum o.fl. Bókina prýða jafnframt um 300 myndir.
Höfundar bókarinnar eru Bernharð Haraldsson og Sverrir Pálsson. Í ritnefnd voru auk Bernharðs þeir Baldvin Jóhannes Bjarnason og Magnús Aðalbjörnsson.