Árið 2013 var þema skjaladagsins „Fjársjóðir úr fórum skjalasafnanna“ sem vísaði til þess að í skjalasöfnunum eru merkilegar heimildir um sögu landsins og mannlíf. Þar getur hver og einn fundið sinn fjársjóð. Einstök skjöl eru samt misverðmæt og fer það mat mikið eftir notendum. Það sem einum virðist fánýtt plagg er himnasending í augum annars.
Á söfnunum hafa verið samin stór og merk verk um sögu landsins og einstakra héraða, skáld hafa sótt þangað innblástur, námsmenn leitað upplýsinga og ótalmargir komið að leita rótanna. Sum sé bæði stór viðfangsefni og smá. Allri þessari starfsemi fylgir ótvíræð gleði, ekki svo sem stanslaus sæla og stundum gengur ekkert og þá er leiðinlegt. En þegar rétta plaggið kemur í leitirnar, eftir kannski mikla leit og flettingar, er ávöxturinn ríkulegur, tilfinningin að hrópa upp: „Sjáðu hvað ég fann!“
Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfnin séu tryggir vörslustaðir skjala af hvaða tagi sem er. Þrátt fyrir gildandi lög um opinbera skjalavörslu, er ekki nægilega áréttað að einstaklingar í félögum, stofnunum og fyrirtækjum ráða miklu um hvað verður um gögnin sem þeir vinna með eða varðveita. Fundargerðarbækur, bréf, myndir og fleiri skjöl eiga fullt erindi á skjalasöfn.
Héraðsskjalasafnið á Akureyri var með tvö innslög á vef skjaladagsins sem báru nöfnin „Möðrufellslangloka“ og „Lengi er von á einum" og lýsa því hvernig tveir gestir safnsins fundu þar einn daginn sína fjársjóði.
HÉR MÁ SJÁ PISTILINN „LENGI ER VON Á EINUM"