Þann 16. júlí 2016 var innsigli rofið á lokuðum pakka sem Kristján frá Djúpalæk afhenti safninu árið 1979. Í pakkanum voru bréfaskipti Kristjáns og Böðvars Guðmundssonar skálds á Kirkjubóli í Hvítársíðu frá árunum 1943-1974.
Í framhaldi af þessum viðburði setti Héraðsskjalasafnið upp sýningu á skjölum og öðru efni tengdum Kristjáni frá Djúpalæk undir heitinu „Meðal fólksins er vettvangur minn“. Sýnt var bréfasafnið sem opnað hafði verið um sumarið, einnig fyrsta ljóðahandrit Kristjáns, Frá nyrstu ströndum, síða úr handritinu Óður steinsins, hugleiðingar hans um drauma og fyrra líf að ógleymdum minningarköflum úr eigin ævi sem Kristján sendi Kristjáni syni sínum þegar hann var við nám í Skotlandi. Þá var enn fremur á sýningunni handrit Kristjáns að úrvali óbundins máls, sem hann hugsaði sér að kæmi út á bók með titlinum Á sjónskífunni.
Á sýningunni var hægt að setjast niður og horfa á landslags- og fjölskyldumyndir á skjá, bæði myndir sem fylgdu einkaskjalasafni Kristjáns og myndir sem Sigurþór Hólm Tryggvason, systursonur Kristjáns lagði til úr safni móður sinnar Aðalheiðar Einarsdóttur frá Djúpalæk.
Amtsbókasafnið lagði til útgefnar bækur og hljómplötur með efni um eða eftir Kristján og hægt var að hlusta á brot af þeim gríðarlega fjölda af söngtextum og dægurlagatextum sem Kristján samdi.
Sýningin „Meðal fólksins er vettvangur minn“ sem stóð yfir 4. – 30. nóv. var í tengslum við samnefnda dagskrá sem Akureyrarstofa stóð fyrir í Hofi í samstarfi við Héraðsskjalasafn og Amtsbókasafn.