10. apríl 2015 efndi safnið til hádegisfyrirlestrar í Héraðsskjalasafni/Amtsbókasafni undir yfirskriftinni ,,Brenndu þetta snifsi að lestri loknum“. Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður í Reykjavík sótti okkur heim og fjallaði um mikilvægi þess að varðveita einkaskjöl kvenna til jafns við karla.
Einnig voru til sýnis nokkur skjöl kvenna sem varðveitt eru á Héraðskjalasafninu. Gerðu skjalaverðir þeim skil í stuttu máli og sögðu frá því hvaða skjöl kvenna eru varðveitt á safninu.
Fyrirlesturinn var hluti af söfnunarátaki á skjölum kvenna sem hófst þetta ár. Átaksverkefnið var samstarfsverkefni Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasafna í landinu.
Bréf frá Önnu Soffíu Davíðsdóttur í Kanada til Ólafar Elíasdóttur í Hól
Svo virðist sem konum hafi ekki þótt jafn merkilegt og körlum hvað þær voru að fást við og skrifa um, því að skjöl kvenna hafa síður skilað sér inn á söfnin en skjöl karla. Því þykir sérstök ástæða til að hvetja fólk til að stuðla að varðveislu þeirra með því að koma þeim í örugga geymslu. Það sem átt er við með skjölum eru t.d. bréf, dagbækur, póstkort, teikningar, kvæði, smásögur, ljósmyndir, ræður, erindi og ýmiss annar fróðleikur, eldri sem yngri.
Héraðsskjalasafnið á Akureyri tekur sem fyrr við skjölum karla og kvenna úr öllum stéttum og á öllum aldri. Hægt er að koma skjölunum til safnsins að Brekkugötu 17 og/eða hafa samband með tölvupósti á netfangið herak@herak.is eða í síma 460-1290.