Fyrir 150 árum eða þann 1. maí 1862 birtist grein um Glerá í Norðanfara, blaði sem gefið var út mánaðarlega á Akureyri.
Greinin fjallar um hversu mikill farartálmi Glerá er, því þá er hún óbrúuð með öllu. Sagt er frá því að oft hafi komið til tals að brúa ána ofan Bandagerðisfossins
og að nú hafi sýslumaður hafist handa við að safna fé til brúargerðarinnar.
Greinina í heild má sjá hér.
Þremur árum seinna 1865 seinna kemur frétt um að brúin sé komin á og hún sé fyrir sunnan og neðan Bandagerði, litlu fyrir ofan eyrarnar eða þar sem gilið þrýtur. Aftur er talað um nýja brú á Glerá 1880 og hún þá líklega byggð á sama stað.
Enn kemur ný brú sumarið 1904, en þá neðar. Þá þarf að gera sér mat úr efniviðum gömlu brúarinnar og í blöðum er þá svohljóðandi auglýsing sumarið 1905: Samkvæmt fyrirmælum Stjórnarráðs Islands verður hin eldri brú á Glerá fyrir ofan Bændagerði seld við opinbert uppboð mánudaginn hinn 17. júlí n. k. Uppboðið hefst kl. 12 á hádegi. Söluskilmálar verða birtir á uppboðsstaðnum. Skrifstofu Eyjafjarðarsýslu 22. júní 1905. Ing. Bjarnarson. settur.
Þessi brúarstæði voru þó ekki mjög hentug fyrir íbúa í Glerárþorpi, því að langt var að krækja þarna uppeftir ef þeir vildu bregða sér í kaupstaðinn. Þorparar dóu ekki ráðalausir, þeir stofnuðu félag eða brúarstjórn og söfnuð fé til brúargerðar með samskotum, héldu hlutaveltu, bögglauppboð og skuggamyndasýningu og gáfu einnig vinnu sína og byggðu göngubrú neðar á ána. Varðveist hefur Gjörðabók Neðri-Glerárbrúar frá 1915-1945 og þar kemur fram að fyrst árið 1919 leggja Akureyrarkaupstaður og Glæsibæjarhreppur peninga til þessarar brúar.
Fróðlegt væri og nauðsynlegt að taka saman yfirlit yfir allar þær brýr sem byggðar hafa verið á Glerá, en elsta heimild sem vitað er um er í Sturlungu og getið um hana þannig: „Þar var brú á ánni ok gljúfr undir“.
Úr gjörðabók Neðri-Glerárbrúar 1915-1945