Guðmundur Vigfússon skósmiður og Helga Guðrún Guðmundsdóttir kona hans byggðu sér hús við Spítalastíg 1 árið 1903. Guðmundur var fæddur 1864 á Hólabaki í Þingeyrasókn, Húnavatnssýslu en Guðrún árið 1866 á Njálsstöðum í Höskuldsstaðasókn, einnig í Húnavatnssýslu.
Guðmundur var skósmiður, hann starfaði fyrst á Sauðárkróki, en frá 1892 á Akureyri. Guðmundur lést árið 1925, en Guðrún 1954.
Í fundargerðum bygginganefndar Akureyrar má sjá eftirfarandi um Spítalaveg 1:
2. maí 1903.
„1. Nefndin ákvað legu húss, er skósmiður Guðm. Vigfússon ætlar að byggja með fram Eyrarlandsvegi 14x11 og tvíloptað, þannig að það skyldi standa í fyrirhugaðri húsalínu samkv. bæjarkortinu, 10 ál norður frá svokallaðri smiðju.“
12. apríl 1907.
„1. Guðmundi skósmið Vigfússyni var leyft að lengja hús sitt No 1 við Spítalaveg, suður um 7 álnir. Hin nýja viðbót sé einlyft en að öðru leyti eins og hið gamla hús. Eldvarnargafl ber að setja á lóðarmörk að sunnan.“
Spítalavegur 1 var að sjálfsögðu íbúðarhús, en þar var einnig rekin skósmíðavinnustofa og hafði Guðmundur bæði aðra skósmiði og skósmíðanema í vinnu. Sagt er að hjá honum hafi einhverjir mállausir menn fengið vinnu og því hafi þar verið einskonar fyrirmynd að vernduðum vinnustað. Myndin sem hér er birt af húsinu barst safninu nú nýverið ásamt einkaskjölum úr eigu Arthurs Guðmundssonar, innkaupastjóra hjá KEA, en hann var sonur fyrrnefndra hjóna.
Íslendingur 25.11.1921.