Loftvarnanefnd Akureyrar og kirkjuklukkurnar

Bæklingur loftvarnarnefndar. Þar var bæjarbúum leiðbeint um hvernig bregðast ætti við ef til loftárá…
Bæklingur loftvarnarnefndar. Þar var bæjarbúum leiðbeint um hvernig bregðast ætti við ef til loftárása kæmi.

 

Árin 1940 – 1942 var starfandi á Akureyri, líkt og víðar á landinu, loftvarnarnefnd.

Upphafið má rekja til þess að Sigurður Eggerz bæjarfógeti kallaði þá Steinn Steinsen bæjarstjóra og Gunnar Schram símstjóra sér til aðstoðar í nefndina. Nefndin kom saman til fyrsta fundar 11. júní 1940 og setti saman leiðbeiningar fyrir almenning og ræddi um staði sem nota mætti til skjóls ef til loftárása kæmi.

Í byrjun komu upp ýmis vandamál varðandi skipulagið á loftvörnum en þau snéru einkum að kostnaði og hvernig ætti að gefa hljóðmerki til að vara við loftárás. Tímabundin lausn á vandanum með hljóðmerkin var að nota brunabíl kaupstaðarins til þess að vara íbúana við aðsteðjandi vá. Kostnaðarvandinn leystist með bráðabirgðalögum Alþingis um loftvarnarráðstafanir. Með lögunum var bæjar- og sveitastjórnum heimilað að grípa til nauðsynlegra loftvarnaraðgerða, sem skyldu greiðast að hálfu úr viðkomandi bæjar- eða sveitarsjóði og að hálfu úr ríkissjóði.  

Bæjarfulltrúar vildu vissulega fara að lögum og bæjarstjórnin kom því saman og skipaði nýja nefnd, sem leysti þá fyrri af hólmi. Brýnasta verkefni nýju nefndarinnar var að finna endanlega bót á hljóðmerkjavandanum. Um þetta leyti var verið að ljúka við hina nýju kirkju Akureyringa. Loftvarnarnefnd fann þá snilldarlausn að nota kirkjuklukkur nýju kirkjunnar til þess að gefa hljóðmerki ef til loftárása kæmi, bærinn myndi þá borga hlut í kirkjuklukkunum  og ríkissjóður yrði að greiða eins upphæð á móti. 

Kirkjuklukkurnar boðuðu nú hættu en sá hængur var á að annars mátti lítið brúka þær. Eingöngu mátti hringja til messu milli klukkan 13.55 og 14.00 á helgidögum og við jarðarfarir og þá bara eitt og eitt högg.

 

Heimildir:

Hskj. Ak. A-104/1. Loftvarnarnefnd. Bæklingur um loftvarnir.
Hskj. Ak. A-104/3. Loftvarnarnefnd. Gjörðabók.
Jón Hjaltason. (1991). Hernámsárin á Akureyri og Eyjafirði. Akureyri: Bókaútgáfan Hólar.