Á Akureyri áttu fátækir og aldraðir kost á heimaþjónustu árið 1907. Þessi þjónusta var þó ekki innt af hendi af sveitarfélaginu né ríkinu heldur var hún dugnaði og fórnfýsi nokkurra kvenna í bænum að þakka.
Þann 4. febr. árið 1907 stofnuðu nokkrar konur á Akureyri Kvenfélagið Hlíf. Í félagslögum þess segir svo: "Tilgangur félagsins er sá, að hjúkra sjúklingum í Akureyrarkaupstað, einkum fátæklingum. Einnig að hjálpa örvasa gamalmennum."
Frumkvöðull að stofnun Hlífar var Hólmfríður Þorsteinsdóttir og var félagið stofnað heima hjá henni í Strandgötu 1. Aðrir stofnendur voru: Anna Magnúsdóttir, Guðfinna Antonsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Jóhanna Jónasdóttir, Lára Ólafsdóttir, Magðalena Þorgrímsdóttir, Pálína Þorkelsdóttir. Nafni félagsins var breytt 4. maí 1908 í Hjúkrunarfélagið Hlíf.
Á þessum árum voru ekki til sjúkrasamlög og fáir höfðu efni á að kosta sig á spítala. Konur í bænum fylktu sér um þetta nýja félag, árgjaldið var 1 króna, en haldnar voru hlutaveltur og leiksýningar til að afla fjár.
Fyrsta árið gengu félagskonur í heimili og hjúkruðu sjúklingum án endurgjalds. Um jólin gáfu þær sjúklingum í sjúkrahúsinu jólagjafir og komu þar upp jólatré. Í maí 1908 réði félagið tvær konur sem orð höfðu á sér fyrir hjúkrunarhæfileika og nákvæmni við sjúklinga, þótt ekki væru þær lærðar hjúkrunarkonur. Þetta voru þær Efemía Einarsdóttir og Sigurbjörg Jónsdóttir.
Í Reglugjörð fyrir hjúkrunarkonu Hjúkrunarfjelagsins Hlífar á Akureyri segir m.a.:
Meðan á hjúkrun stendur er heimilislæknirinn eini yfirboðari hjúkrunarkonunnar.
Vinnutími hjúkrunarkonu er frá kl. 8 árdegis til kl 8 síðdegis. Á þeim tíma skal hún hafa matfrið 1 og 1/2 stund.
Störf hjúkrunarkonu eru aðallega að annast sjúklinga, gera hreint í herbergi hans og halda þar öllu þrifalegu.
Í öllu starfi sínu ber hjúkrunarkonunni að auðsýna góðvild og nærgætni, bæði við veika og heilbrigða, á þeim heimilum er hún gegnir hjúkrunarstörfum. Svo er þess krafist að hún temji sér þagmælsku viðvíkjandi ýmsu á heimilum, er kann fyrir augu að bera eða í eyrum að hljóma, og forðast allan milliburð.
Ef hjúkrunarkonan er hjá sjúklingi sem hefur sóttnæma veiki, skal hún sótthreinsast áður en hún fer til næsta sjúklings.
Reglugjörðina í heild má sjá hér, en hún er varðveitt í Héraðsskjalasafninu á Akureyri ásamt öðrum skjölum Hlífar.
Árið 1910 lét félagið hjúkra 20 sjúklingum í 440 daga, þar af 386 daga endurgjaldslaust og 54 gegn endurgjaldi, en efnameiri heimili þurftu að greiða fyrir hjúkrunina. Þetta ár var auk þess varið 111 kr. til hjálpar sjúklingum og til jólagleði fyrir sjúklinga á sjúkrahúsinu 45 kr.
Kristín Sigfúsdóttir skáldkona orti ljóð í tilefni af 10 ára afmæli Hjúkrunarfélagsins Hlífar. Þar segir m.a.:
"Eitt vinarbros, er veikum bróður mætir,
fær vakið þrótt í kaldri sjúkdómsneyð.
Eitt kærleiksorð, er böl og sorgir bætir,
fær birtu varpað yfir margra leið..."