Glerárgarðurinn - varnir gegn ágangi Glerár

Örin bendir á varnargarðinn sem gerður var til þess að verjast flóðum í Glerá árin 1919 og 1920.
Örin bendir á varnargarðinn sem gerður var til þess að verjast flóðum í Glerá árin 1919 og 1920.

Þann 12. janúar 1917 birtist grein í Íslendingi sem hefst á þessum orðum:

Það hefir oft verið um það rætt, að Akureyarbæ standi talsverð hætta af Gleránni, einsog um hana er búið nú, og oftar en einu sinni hefir það komið fyrir, að annaðhvort Glerárin sjálf eða tóvélalækurinn hafi bólgnað svo upp í hríðum, að þau hafi hlaupið úr farveg sínum og flætt suður að húsunum á Oddeyri og gert þar allskonar óskunda, svo sem runnið inn í kjallara o.s.frv.

Greinarhöfundur heldur áfram og bendir á að miklar líkur séu á að Gleráin muni senn breyta farvegi sínum og nauðsynlegt sé að grípa til ráðstafana gegn því annars sé byggðinni á Oddeyri voði búinn.

Það kemur einnig fram að bæjaryfirvöld höfðu rætt málin fyrirfarandi ár og látið gera hallamælingar á eyrunum og áætlun um garð til að halda ánni í farvegi sínum. Greinarhöfundi fannst nóg komið af tali og kallaði eftir aðgerðum.

Í apríl þetta sama ár (1917) gengu fulltúar veganefndar út að Glerár til þess að kanna aðstæður og möguleika þess að verjast flóðum úr henni. Ekki töldu nefndarmenn sig geta lagt fram ákveðnar tillögur vegna þess að ís og ruðningur var yfir og landslagið því ekki nógu sýnilegt. Samt þóttust þeir sjá möguleika þess að veita ánni aftur í sinn gamla farveg norður að bökkunum, fyrir a.m.k. 300 krónur. Kannski hefur þeim þótt kostnaðurinn drjúgur enda kölluðu nefndarmenn eftir úrskurði bæjarstjóra um hvort það væri bæjarins eða lóðareigenda á Oddeyri að verjast ágangi árinnar. Það var og álit nefndarmanna að það sé með öllu ótækt að Glerárin hafi ekki framrás við ósinn ofan við Oddeyrartangann eins og verið hefur, þartil á síðastliðinu ári að lóðareigendur stífluðu ósinn að mestu leyti.

Og málið hélt áfram. Í apríl 1918 skoðuðu veganefndarmenn tillögur Benedikts Jónassonar að varnargarðinum við Glerá, rýndu í kostnaðartölur og skoruðu á bæjarstjórn að halda fund með lóðareigendum um kostnaðarþátttöku þeirra í framkvæmdinni.

Í maí fóru svo nefndarmenn, ásamt bæjarverkstjóranum Páli J. Árdal, aftur í vettvangsskoðun út að Glerá. Niðurstaðan þeirra var að tillaga Benedikts væri ekki nógu heppileg og lögðu nefndarmenn til ,,...að Varnargarðurinn verði lagður, frá næsta melhorni ofan við Tóvélarnar og út og ofan eyrarnar allt niður undir brúna sem liggur yfir ána, lengd garðsins samkvæmt þessu verður 300 metrar og hæðin áætluð allt að 2 metrum, bæjarverkstjórinn hefur áætlað lauslega að varnargarðurinn muni kosta allt að 16.000.00 krónur.“

Í september var landsverkfræðingurinn Geir Zoëga búinn að leggja blessun sína yfir tillögu veganefndarinnar um legu garðsins og nefndarmenn biðu eftir teikningum hans og kostnaðaráætlun. Nefndarmenn lögðu eigi að síður til að byrjað yrði á verkinu s.s. við að flytja grjót á staðinn. Ekki var búið að leysa vandann með kostnaðinn við verkið þrátt fyrir fundarhöld og ábendingar til bæjarstjórnar um að gera ráð fyrir framkvæmdinni í fjárhagsáætlun.

Í janúar 1920 hélt bæjarstjórinn fund með lóðareigendum á Oddeyri um þátttöku í kostnaði við byggingu Glerárgarðsins. Nokkrir lóðareigendur voru fúsir til að taka þátt í kostnaðinum en ákveðið var að halda málinu áfram meðal þeirra lóðareigenda sem ekki mættu á fundinn. Síðan segir í fundargerðinni: ,,Að öðru leyti ákvað bæjarstjórinn og veganefnd að haldið skyldi sér við þá samþykt bæjarstórnarinnar að lög verði gefin út, er skyldi lóðareigendur til að borgar sérstakan skatt vegna kostnaðar við verk þetta, ef ekki næst það samkomulag, er bæjarstjórinn telur aðgengilegt.

Garðurinn var gerður 1919 og 1920.

Heimildir:

,,Akureyri og árnar í grend við hana“, Íslendingur, 8. júní 1920.
A-1/142 Skjöl frá bæjarstjórn, bæjarstjóra og bæjargjaldkera. Ávísanir og fylgiskjöl 1920.
A-2/8 Send bréf frá skrifstofu bæjarstjórnar. Bréfabók bæjarskrifstofu (kopíubók) 1918-1921.
A-27/1  Veganefnd. Gjörðabók 1906-1921.
,,Til athugunar“, Verkamaðurinn, 11. september 1919.
,,Úr bænum“, Dagur, 15. janúar 1919.
,,Varnargarðurinn“, Íslendingur, 12. janúar 1917.