Oddur Thorarensen lyfsali, sá elsti með því nafni, var einn af íbúum Akureyrar árið 1862. Hann var þá titlaður fyrrverandi lyfsali. Oddur var fæddur á Möðruvöllum, Arn. árið 1797 og andaðist á Akureyri 1880, 83 ára gamall.
Í bréfi frá Stefáni Thorarensen sýslumanni til Ólafs Jónssonar, hreppstjóra Hrafnagilshrepps 28. júlí 1860 er tilkynnt um höfðinglega gjöf frá Oddi Thorarensen fyrrum apothekara og vitnað í bréf Odds á þessa leið:
"Ég hefi haft meðalasölu á Akureyri í rúm 20 ár og á seinni hluta þess tímabils úthlutað þeim fátækrameðölum, sem af konungssjóði eru veitt til útbýtingar í þessu læknisumdæmi og af reynslunni sjeð að fátækrameðöl þessi optastnær hafa verið uppgengin um miðsumar og aldrei náð til ársloka, mörgum fátækum til meins, sem seinni part ársins hafa verið sjúkir en ekki haft efni til að fá meðöl keypt. Til þess eptir fátækum efnum um stundarsakir að reyna að bæta úr þessu hefi ég borgað syni mínum apothekara J.P. Thorarensen einsog hjálögð viðurkenning hans sýnir, tvö hundruð ríkisdali, með þeirri ákvörðun, að hann fyrir þessa 200 rd, án þess þó þaraf að svara rentu; afhendi fátækum í Eyjafjarðarsýslu meðöl frá apotheki sínu, þegar hin árlegu gjafameðöl eru þrotin, móti sömu attestum sem heimtuð eru við útbýtingu gjafameðalanna. Til að sjá um að ofannefndum 200 rd sje rjettilega varið einsog ég hefi tilætlast, afleggur apothekari J.P. Thorarensen árlega reikning yfir það sem brúkað hefir verið og vona ég að hlutaðeigandi hjeraðslæknir skoði hann og árlega sendi amtmanni skýrslu yfir hvað í hvert sinn er eptir óbrúkað".
Héraðsskjalasafnið á Akureyri H-10/18 Bréf Hrafnagilshrepps 1850-1865.
Til viðmiðunar þá var ærverðið 1860 tæpir 5 ríkisdalir, dagsverkið var metið á 90 skildinga eða tæpan 1 ríkisdal og lítrinn af brennivíni fékkst fyrir 20 skildinga.