Í dag eru 205 ár síðan Jónas Hallgrímsson fæddist á Hrauni í Öxnadal. Í dag er einnig haldið upp á dag íslenskrar tungu sem haldinn hefur verið hátíðlegur árlega á afmæli Jónasar síðan árið 1996.
Í tilefni af 200 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar árið 2007 var haldið niðjamót Rannveigar Jónasdóttur og sr. Hallgríms Þorsteinssonar foreldra Jónasar. Fyrir niðjamótið var tekið saman smárit með ættfræði og myndum þar sem sjá má upplýsingar um foreldra Jónasar, systkini hans og nokkra afkomendur þeirra.
Ritið afhenti Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá Héraðsskjalasafninu á Akureyri í janúar 2008 og má sjá það í heild sinni hér.
Konráð Gíslason, vinur Jónasar, lýsti útliti hans á eftirfarandi hátt í eftirmælum sem birtust í Fjölni.
„Jónas var gildur meðalmaður á hæð, þrekvaxinn og limaður vel, en heldur feitlaginn á hinum seinni árum sakir vanheilsu, vel rjettur í göngu, herðamikill, baraxlaður, og nokkuð hálsstuttur, höfuðið heldur í stærra lagi, jarpur á hár, mjúkhærður, lítt skeggjaður og dökkbrýnn. Andlitið var þekkilegt, karlmannlegt og auðkennilegt, ennið allmikið, og líkt því, sem fleiri enni eru í hans ætt. Hann var rjettnefjaður og heldur digurnefjaður, granstæðið vítt, eins og opt er á Íslendingum, og vangarnir breiðir, kinnbeinin ekki eins há og tíðast er á Íslandi, munnurinn fallegur, varirnar mátulega þykkvar; hann var stóreygður og móeygður, og verður því ekki lýst, hversu mikið fjör og hýra var í augum hans, þegar hann var í góðu skapi, einkum ef hann ræddi um eitthvað, sem honum þótti unaðsamt um að tala“.