...Þessi bók er gefin af cand.jur. Birni Halldórssyni, og kann félagið honum beztu þakkir."
Þessi orð eru skrifuð á opnu fundargerðabókar Sundfélagsins Grettis, sem Héraðsskjalasafnið fékk afhent 1. október sl. Bókin nær yfir árin 1937 – 1946.
Það kemur fram í fyrstu fundargerð félagins að Björn Halldórsson lánaði ritaranum sjálfblekung til þess að skrifa fundargerðina og á öðrum fundi félagsins var Björn kosinn fyrsti formaður. Hann hefur því gert félaginu ýmislegt gott.
Það er alltaf gleðiefni að fá afhendingar en þessi bók er sérstaklega kærkomin vegna þess að í apríl sl. hófst átak Félags héraðsskjalavarða og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í söfnun og skráningu á skjölum íþróttafélaga og íþróttatengdum skjölum. Auk þess var Sundfélagið Grettir fyrsta sundfélag Akureyringa, stofnað í júlí 1937, en heimildir um það hafa ekki verið miklar.
Meðal stofnfélaga í sundfélaginu voru systkinin Gunnhildur, Anna og Jóhannes Snorrabörn. Þau voru börn Snorra Sigfússonar skólastjóra í Barnaskólanum og Guðrúnar Jóhannesdóttur konu hans. Anna, þá 14 ára gömul, keppti á Norðurlandsmótinu í sundi árið 1934. Mótið var haldið í sundlauginni í Grófargili, sem var þá nokkuð ný og einhverjir héldu fram að væri fullkomnasta sundstæði landsins. Á mótinu setti Anna Íslandsmet í 100 metra sundi með frjálsri aðferð. Anna synt bringusund en árið eftir hafði hún lært skriðsund og bætti Íslandsmetið um 5 sekúndur á Norðurlandsmótinu. Jóhannes var einnig sterkur sundmaður og var Norðurlandsmeistari a.m.k. tvisvar. Jóhannes átti síðar eftir að verða formaður Grettis.
Steinunn Jóhannesdóttir fékk félagsskírteini í Sundfélaginu Gretti 28. nóvember 1937 en þegar hún varð Íslandsmeistari í október 1939 í 200 m sundi var hún Þórsari. Í ársbyrjun 1940 átti Steinunn Íslandsmetin í öllum fjórum vegalengdum bringusundsins þ.e. 50, 100, 200 og 400 metrum.
Síðasta fundargerðin í áðurnefndri bók er rituð 18. september 1946 en þá er greinilega farið að sjást fyrir endalok félagsins. Menn vildu þó ekki gefast upp en umsvif félagsins urðu ekki mikil eftir það og 1949 var félagið strikað út af meðlimaskrá Íþróttabandalags Akureyrar.