Glefsur úr dagbók Baldvins Bessa Gunnarssonar (1854-1923) bónda, útgerðarmanns og kaupmanns í Höfða. Textinn er lítillega lagaður og færður til nútíma stafsetningar. Í dagbókinni er ýmis annar fróðleikur s.s. um búskapinn og mannlífið.
Þriðjudagur 1. Nýársdagur með dynjandi regni og sunnan gráði, gekk svo í norðrið með kraphríð um tíma en birti svo ögn og var þokkalegt veður...
Laugardagur 5. Hánorðan nepju stormur með 10°fr og dimmu lofti sem þó birti fljótt úr hafi. Var frostlaust framan af nóttu og vestan rok í gærkveld eftir að háttað var. Herti frostið í 13°fr um kveldið og syrti þó heldur að.
Sunnudagur 6. Þrettándinn. Blindbylur með 13°fr og norð austan hvínandi stormi mjög líkt ísreka byl. Sama hríð til kvelds og 14°fr um tíma.
Mánudagur 7. Norðan hríðarveður 12 ½ °fr birti fljótt og sást þá að fjörðinn var að fylla af hafís ... Andaði sunnan um kveldið með 14°fr.
Þriðjudagur 8. Suð-austan gola með 14°fr heldur bjart: Hafísina að reka út en allt grunnið lagt út á miðja Lönguvík og mikið inn á firði. Hafís kragi kringum allt grunnið... Hvessti sunnan um kvöldið og baróm fallið mikið.
Miðvikudagur 9. Norð-vestan stormur 6°fr nærri heiður en blika í suðri... Ég fór með kíkir út á Háhlíðar og sá ís útaf Hrólfskeri fyrir öllu hafinu en lítið þar fyrir innan. Er alltaf að herða frostið.
Fimmtudagur 10. Norð-vestan öskudimm hríð með 15°fr og ógnar roki svo allt er að fljósa inni og úti. Birti úr hádegi. Þá var fjörðurinn að kalla augalaus af hafís, aðeins vök innan við Laufásgrunn og líka með vesturlandinu mjó ræma auð.
Laugardagur 12. ...Nú er fjörðurinn augalaus nema vök fram með Laufásgrunninu. Ógnar kuldalegt og allt ætlar að fljósa. Vatnið í ærhúsunum frosið á hverjum morgni.
Sunnudagur 13. Norðan hríð svo ekki sjer til sjávar 16°fr ógnar bitur kuldinn vegna stormsins sem bítur í gegnum allt. Læknirinn og Þengill fóru í gær gangandi yfir ísinn vestur á Hjalteyri og komu til baka um háttatíma. Hafði verið allgott gögnufæri á ísnum. Þeir fréttu að ísinn væri komin suður að Vopnafirði, einnig að friðartilraunir ófriðarþjóðanna hefðu strandað svo líkindi eru að stríðið vari eitthvað ennþá.
Mánudagur 14. Logn og albjart 16°fr og sama veður til kvelds.... Steini Guðmundsson ætlaði að ganga yfir á Hauganes, hann komst lítið framfyrir rifið og sneri þar aftur því talsverð kvikuhreyfing var í ísnum, fór hann svo gangandi að austan inn fyrir fjörð.
Þriðjudagur 15. Norðan andi og heldur þykt í lofti og ekki nema 11°fr.
Miðvikudagur 16. Logn alheiður 16°fr sama verður til kvelds.
Fimmtudagur 17. Logn heldur dimmt í lofti og frostið 12° fór ögn að hríða svo frostið fór í 10°....Baldi og Fúsi í Tungu fóru gangandi inn ís inn á Akureyri. Frjettist í gær að 90 höfrungar hefðu veiðst á Grímsnesi á sunnudag.
Föstudagur 18. Norð-austan næðingur 23°fr á selsíusmælir. Reaumur sem við höfum haft er ekki réttur, sýnir of lítið frost. Hefir víst orðið 20°á R um daginn þegar ísin rak inn.
Laugardagur 19. Logndrífa 20°fr á Celsíus ...Hríðaði allt til kvelds og þó dró alls ekki úr frosti.
Sunnudagur 20. Norð-vestan stórhríð með ofsa drifi og 29°fr Cels, ákaflega hvasst í nótt með þessu ógnar frosti. Að koma út vel klæddur er eins og að fara í ískalt bað, svo næðir fljótt í gegnum föt. Herti frostið í 31°fr C kyrrði svo heldur með kveldi en þá ljótur hríðarbakki í norð-vestri
Mánudagur 21. Logn albjartur með 26°fr R, 34°C allt er líka að frjósa. Svellbunkar og héla innan öllum gluggakistum en þó frýs ekki í kjallaranum og ekki vatnið sem er látið renna á nóttunni ... Dró aldrei úr fostinu í dag og líklega heldur meira um kveldið.
Þriðjudagur 22. Logn svo hvass á sunnan 22° fr C en minnkaði fljótt ofan í 10°. Varð hvasst með renningi og norð-vestan bliku svo líklega verður ekki lengi sunnan. Varð rokhvass mest af degi en kyrrði svo um kveldið og frostið þá 4°. Er hvasst á norð-austan í lofti þegar háttað var.
Miðvikudagur 23. Logn 12°fr C þám í lofti og líkt og mildara sé í nánd.
Fimmtudagur 23. Hásunnan gola 5°fr C útlit að eitthvað rynni frá ísinn því sagt er að stór vök hafi verið að myndast í fjarðarminni í gær.
Föstudagur 25. Þorri byrjar í dag og Pálsmessa. Þoka yfir ísnum og val hálfskýjað 9°fr C. Er einhver rýgur því landáttarský eru í suðri en þá bakki í norðri... Setti yfir koldimma þoku er kom fram á daginn og sá hvergi til lofts.
Laugardagur 26. Norðan gola með hríð og dimmu svo aðeins glórir niður á bakkana 9°fr C. Bar mjög lágt svo líklega ætlar hann í vonda hríð.
Sunnudagur 27. ...Engir treystu sér til kirkju vegna kuldans.
Bræðurnir Þórður (1865-1935) og Baldvin Gunnarssynir tóku við búi föður síns í Höfða um 1890. Búskapur þeirra var með stærra sniði en venjulegt var og um aldamótin 1900 var í Höfða eitthvert stærsta bú sýslunnar. Nokkru seinna settu þeir á stofn verslun á Kljáströnd, ásamt Birni bróður sínum. Þeir létu ekki þarf við sitja heldur hófu að gera út líka. Allt var í sameign þeirra bræðra og skipt jafnt. (Björn Ingólfsson: Bein úr sjó)
Þórður og Baldvin skiptust á að halda dagbók en þær ná til áranna 1887-1935. Yfirlit yfir efni frá þeim má sjá hér