,,Út í Eyjum" - Norðurpóll

Ekki fór gott orð af mannlífinu í Norðurpólnum á meðan Sigríður og Magnús ráku þar veitingasölu. Þar…
Ekki fór gott orð af mannlífinu í Norðurpólnum á meðan Sigríður og Magnús ráku þar veitingasölu. Þar var víst hægt að fá fleira en ,,kaffi og þessháttar“.

Árið 1907 fékk Kristján Markússon (1872-1932) trésmiður leigða lóð undir hús sem hann hafði þegar byggt við Gránufélagsgötu. Húsið var í miðju síkjalandinu á Oddeyri og sagt var að það stæði ,,út í Eyjum“, umkringt votlendi og smátjörnum. Húsið fékk síðar húsnúmerið Gránufélagsgata 57a. Árið 1910 keyptu Sigríður Ingimundardóttir (1884-1959) og Magnús Þórðarson (1870-1946) húsið, hófu veitingarekstur og ráku þar til fjölda ára. Húsið var afskekkt en það blasti við hverjum þeim sem kom siglandi fyrir Oddeyrartangann. Það nýttu þau Sigríður og Magnús sér, gáfu húsinu hið lokkandi nafn  Nordpolen og máluðu nafnið stórum stöfum á húsið. Tilgangurinn var að laða að erlenda sjómenn, sem voru fjölmennir á Akureyri yfir sumartímann. Akureyringar íslenskuðu nafnið strax og kölluðu húsið oftast Norðurpólinn.

Norðurpóllinn var stórt og reisulegt hús. Í fasteignamati 1940 er húsinu lýst sem einlyftu á kjallara, með porti og háu risi. Eigandinn notaði sjálfur þrjú herbergi og eldhús á stofnhæð og tvö herbergi á rishæð. Hann leigði út tvær íbúðir í rishæð, tvær íbúðir í kjallara og eina íbúð á stofnhæð. Lóðin var ógirt og hætt við að vatn settist á lóðina að hluta.

Eftir að Sigríður og Magnús fluttu í burtu eignaðist Konráð Vilhjálmsson (1885-1962) húsið og KEA eftir hans dag. Norðurpóllinn var rifinn árið 1979.

 

Heimildir:

„Akureyrarlíf“, Gjallarhorn, 4. ágúst 1910.
A-1/76 Skjöl frá bæjarstjórn, bæjarstjóra og bæjargjaldkera. Skjöl vegna smyglsmáls.
A-5/169 Skjalagögn um lóðir, lönd og húseignir. Fasteignamat 1941.
Jón Hjaltason, 2000: Saga Akureyrar III.
Steindór Steindórsson, 1993: Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs.