Þjóðskáldið sr. Matthías bjó á Akureyri í 33 ár

Aðalstræti 50, myndintekin um það leyti sem sr. Matthías flytur þaðan
Aðalstræti 50, myndintekin um það leyti sem sr. Matthías flytur þaðan

Þjóðskáldið sr. Matthías Jochumsson bjó á Akureyri frá því um vorið 1887 og til dauðadags árið 1920 eða alls rúm 32 ár.  Æviferli Matthíasar verður ekki gerð skil hér enda má víða lesa um hann. 

Sr. Matthías flutti til Akureyrar með konu sína og 8 börn frá Odda á Rangárvöllum árið 1887 og vorið eftir voru börnin orðin 9. Þau settust að í Aðalstræti 50, en þar bjó áður Björn Jónsson ritstjóri og prentsmiðjueigandi og rak þar einnig prentsmiðju.


Á Akureyri var kuldalegt og hafísár þegar sr. Matthías kom og auk þess tóku Akureyringar sumir hverjir skáldinu og prestinum heldur fálega í fyrstu vegna trúarskoðana hans að því er sagt er. Matthías hefur lýst aðkomunni svo í ævisögu sinni: „... ekki síst undraði mig, hvað linlega bæjarbúar sóttu kirkju og virtust meta lítið ræður mínar“.  Honum þótti Akureyringar taka ölið fram yfir kirkjusóknina og orti svo um Hótel Akureyri,  sem var í eigu Vigfúsar Sigfússonar „verts“:

Þar um oft mín þenkir önd
að þyrfti meiri háttar vönd
óguðlegt hold að hýða.
Þeir sitja oft í ölhúsi
átján í hóp hjá Vigfúsi
þá hringt er til helgra tíða.

Sr. Matthíasi hefur þó litist vel á Akureyri því strax árið 1890 yrkir hann lofgjörð um bæinn sem hefst svo:

Heil og blessuð Akureyri,
Eyfirðinga höfuðból!
Fáar betri friðarstöðvar
fann ég undir skýjastól;
hýran bauðstu börnum mínum
blíðufaðm og líknarskjól.

Í Aðalstræti 50 ritaði sr. Matthías blaðið Lýð og orti mörg sinna ágætustu kvæða og þar bjó hann og fjölskylda hans til ársins 1903.

Á fundi byggingarnefndar 2. maí 1903 ákvað nefndin „að hús er sr. Matthías Jochumsson ætlar að byggja,  16x12,  í brekkunni vestanvert við Hafnarstræti í lautinni upp af Bergsteinshúsi, skuli standa þannig, að girðing á brún brekkunnar, er hlaðin verður upp, skuli vera í beinni línu við hús Kr. Frid. H. Jones og húsið standi 5 ál. þar vestur af með sömu stefnu, því húsið sjálft getur eigi staðið austar vegna brekkunnar.“  Þarna reisti sr. Matthías hús sitt og nefndi það Sigurhæðir (Eyrarlandsvegur 3) og þar bjó hann með fjölskyldu sína þar til hann andaðist rúmlega 85 ára gamall þann 18. nóv. 1920.

Sr. Matthías var prestur Akureyringa í um það bil 13 ár, hann lét af prestskap í árslok 1899 og þáði eftir það skáldalaun frá Alþingi. Hann bjó þó áfram á Akureyri til æviloka og fór svo, að á efri árum sínum hlotnaðist honum óskoruð ástsæld bæjarbúa. Hann var kjörinn heiðursborgari Akureyrar á 85 ára afmæli sínu þann 11. nóv. 1920 eða 7 dögum áður en hann lést.


Fæðingar- og skírnarvottorð Svövu Jónsdóttur leikkonu er varðveitt í Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Bréf sr. Matthíasar til Leikfélagsins varðandi höfundarréttarþóknun.
Bréf sr. Matthíasar til leikfélagsins varðandi höfundarþóknun fyrir sýningu á Skugga-Sveini.  Bréfið er skrifað 1912 og er varðveitt í Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Heimildir: Steindór Steindórsson. Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs. 1993
HskjAk. Fundargerðir bygginganefndar Akureyrar 1903
Kirkjubók Akureyrar 1887.