Það var blíðuveður í Eyjafirði dagana fyrir sólstöður á því Herrans ári 1886. Vorið hafði verið kalt og gróður seint á ferðinni, en það hlýnaði upp úr miðjum júnímánuði og tóku þá tún að spretta svo um munaði.
Miðvikudaginn 19. júní mældist hitinn á Akureyri 16,3° kl. 8 um morguninn og kl. 2 um daginn var hann kominn í 17,5°. Þennan dag hafði verið boðað til fundar um verslunarmál á Grund og upp úr hádeginu fóru menn að ríða í hlað, sumir komnir neðan af bæjum, aðrir lengst framan úr firði og enn aðrir komnir handan yfir Eyjafjarðará þótt vöxtur væri í henni eftir hita undanfarinna dægra.
Það voru ekki kúgaðir eða vondaufir menn, sem þarna voru á ferðinni í góðviðrinu. Árferði hafði verið skaplegt undanfarið eftir harðæri 1882 og þar í kring. Bændur höfðu aftur náð upp fjártölunni og mundu eiga bæði ull og sauði til að selja á komandi hausti. Ekki voru þeir heldur hlekkjaðir á klafa skulda eða óslítandi verslunarsambanda. Þeir höfðu töluverða reynslu í að leita eftir bestu kjörum og höfðu fullan hug á að taka málin í sínar eigin hendur, ef ekki væri á annan hátt unnt að fá það, sem þeir töldu sanngjarnt verð fyrir gjaldvöru sína og ,,skikkanlega prísa“ á útlendu vörunni.
Fundarefnið var ... að ræða um, hverja stefnu taka skyldi með verslun og vörupöntun úr hjeraðinu á komandi sumri og hausti, sjerstaklega að því er snertir sölu á sauðum í þremur hreppum Eyjafjarðar: Öngulsstaða-, Saurbæjar- og Hrafnagilshreppum.
Hjörtur E. Þórarinsson, 1991: Saga Kaupfélags Eyfirðinga 1886-1986.