Fyrir 50 árum eða árið 1963 bar 22. febrúar upp á föstudag og þannig er það einnig árið 2013! Þennan föstudag, 22. febrúar 1963 var fréttatilkynning í Íslendingi um veitingasölu í Hlíðarfjalli.
Skíðaráð Akureyrar hóf þá helgina áður „veitingasölu um helgar í hinum glæsilega skíðaskála í Hlíðarfjalli“. Skálinn var þó ekki alveg fullbúinn til hótelhalds þá, eins og hugmyndin var að nýta hann í framtíðinni.
Skáli þessi sem enn stendur var reistur úr viðum gamla spítalans, sem reistur var 1898 á Akureyri eftir teikningu Guðmundar Hannessonar, læknis.
Spítalinn var í suðaustur frá núverandi sjúkrahúsi, sunnan við húsið sem er Spítalavegur 13 í dag, enda var það reist sem viðbygging norðan við spítalann.
Spítalinn nýbyggður um 1898
Spítalahúsið var rifið 1956 og viðir úr því notaðir til að reisa Skíðaskálann sem hefur í megindráttum sama lag og útlit og spítalinn. Grunnur var steyptur og akvegur gerður sumarið 1955, en viðirnir fluttir og húsið gert fokhelt 1956.
Skíðahótelið í Hlíðarfjalli, sem Ferðamálafélag Akureyrar reisti árið 1956.
Frumgerð að teikningu Guðmundar Hannessonar af spítalanum er varðveitt á safninu og má sjá hana hér.
Heimildir:
Íslendingur 22. febrúar 1963
Tíminn 28. september 1956
Steindór Steindórsson. Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs
Jón Hjaltason. Saga Akureyrar II. bindi