Skjöl Vélstjórafélags Akureyrar afhent

Eyðublað fyrir fundarboð Vélstjórafélags Akureyrar
Eyðublað fyrir fundarboð Vélstjórafélags Akureyrar
Í gær, 20. maí, voru Héraðsskjalasafninu á Akureyri afhent merkileg skjöl, sem ekki hefðu mátt glatast.  Þar var um að ræða skjöl frá Vélstjórafélagi Akureyrar sem stofnað var 5. janúar 1919.

Fundargerðir, félagaskrár, félagaskírteini, bréf og reikninga má finna í þessum skjölum sem eru frá árunum 1919 til 1968.  Því miður vantar fyrstu fundargerðabókina en í tímaritinu Ægi árið 1944 er grein um félagið og þar segir um stefnu og tilgang félagsins svo. „Tilgangur félagsins er, að efla félagslíf meðal vélstjóra (og vélgæzlumanna) þeirra, sem í félagið ganga og auka þekkingu þeirra í starfinu og yfirhöfuð að efla og viðhalda hag félagsmanna og sjá um að félagsmönnum sé ekki gert órétt í því sem að vélstjórn lýtur.“


Nafnalisti félaga í VSFA (óársettur)

Vélstjórafélag Akureyrar og nágrennis eins og það hét síðar var lagt niður sem slíkt, líklega fyrir 1970 og rann saman við Vélstjórafélag Íslands.

Fundargerðir eru yfirleitt bestu heimildirnar sem finna má um félög sem þessi og því mjög bagalegt að fyrsta fundargerðabók Vélstjórafélags Akureyrar (1919-1924) skyldi ekki fylgja með þessum skjölum.  Ef einhver sem þetta les hefur hugmynd um hvar hún er niðurkomin þá er ábendingum um það vel tekið hér á safninu.