Allt líf okkar er bundið einhvers konar takmörkum. Við fæðumst sem íbúar í ríki sem á sín takmörk. Sumir eiga land sem er bundið landamerkjum og aðrir eiga íbúð sem hefur sín lóðamörk. Þjóðflutningarnir sem við verðum vitni að nú á tímum eru gott dæmi um hvernig slík hugtök verða næsta marklaus þegar milljónir manna taka sig upp frá heimilum sínum og leita nýs lífs í nýju landi.
Líf flestra einstaklinga er bundið lögum, reglum og siðferðisviðmiðum, sem við gerum okkur ekki oft grein fyrir hver eru. En það eru líka margir einstaklingar sem brjóta þessi viðmið – marka ný spor og geta jafnvel breytt viðhorfi almennings með því. Fátt í mannlegri breytni er náttúrulögmál og allt er mannanna verk. Það er því mannanna að breyta viðteknum venjum eða siðum, draga ný landamerki og setja nýjar reglur ef okkur sýnist svo.
Að þessu sinni kemur Héraðsskjalasafnið á Akureyri að skjaladeginum með tvennum hætti. Annars vegar með sýningu sem opnuð var 2. nóvember og heitir ,,Vér heilsum glaðar framtíðinni“. Sýningin er hluti samnefndrar sýningar er opnuð var í Þjóðarbókhlöðu 16. maí s.l.
Sýningin er liður í því að minnast 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi. Hluti sýningarspjaldanna í Þjóðarbókhlöðu var prentaður sérstaklega og hafa söfn víðsvegar um landið fengið þau til afnota og búið til sýningar með eigin efni úr héraði. Hér á Akureyri var bætt við skjölum úr geymslum Héraðsskjalasafnsins sem tengist efninu.
Sýningin er í húsi Amtsbókasafns og Héraðsskjalasafns í Brekkugötu 17, hún er opin mán-fös kl 10-19, lau kl 12-16 og stendur til 30. nóvember.
Hins vegar leggur Héraðsskjalasafnið til efni á vefinn skjaladagur.is sem er sameiginlegur vefur Þjóðskjalasafns Íslands og héraðsskjalasafnanna til að kynna norræna skjaladaginn. Á vefnum á safnið þrjú innlegg sem öll eru dæmi um hvernig kærleikurinn getur verið án takmarka og náð út yfir landamæri og höf.