Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum sameinuðust árið 2001 um árlegan kynningardag, annan laugardag í nóvember.
Í ár er þema skjaladagsins „Veður og loftslag“ sem er sameiginlegt norrænt þema.
Héraðsskjalasafnið á Akureyri tekur þátt í deginum með því að senda efni á sameiginlegan vef skjalasafnanna skjaladagur.is og fyrir valinu urðu fjögur efni.
Í efninu berghlaup segir lítillega frá rannsóknarstarfi Ólafs Jónssonar í Gróðrarstöðinni á snjóflóðum og berghlaupum en það mun óhætt að segja að veðrið hafi mikil áhrif á hvor tveggja. Sumarið 1939 var mjög gott sumar en í efninu blíðviðri eru tekin dæmi úr dagbókum þriggja manna því til sönnunar.
Á árunum 1995-2001 gerði Þorsteinn Þorsteinsson vikulegar veðurspár og byggði þær á háttarlagi fugla. Spárnar birti hann á laugardögum. Árið 1999 bar 13. nóvember upp á laugardag, eins og þetta árið, og því er spá Þorsteins þann dag birt. Þorsteinn safnaði, í félagi við Gísla Jónsson menntaskólakennara, ýmsum orðum og málsháttum sem höfð eru um veður. Afraksturinn kom í ljósrituðu kveri sem Sjóræningjaútgáfan gaf út árið 1997.
Safnið tekur einnig þátt í skjala- og myndasýningu á vegg í Grófarhúsi í Reykjavík, en þar er sameiginlegt opið hús fyrir héraðsskjalasöfnin undir kjörorðinu: Eins og vindurinn blæs...
Þótt lög gildi um opinbera skjalavörslu er ekki nægilega áréttað að einstaklingar í félögum, stofnunum og fyrirtækjum ráða miklu um hvað verður um gögn sem þeir vinna með eða varðveita. Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfnin séu tryggir vörslustaðir skjala af hvaða tagi sem er. Fundargerðabækur, bréf, myndir og fleiri skjöl eiga erindi á skjalasöfn. Og því er fólk hvatt til að hafa samband við næsta héraðsskjalasafn eða Þjóðskjalasafn ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað gera á við.