Hér er gripið niður í dagbók Sveins Þórarinssonar amtsskrifara fyrir réttum 150 árum.
"1. sd. í föstu 9. marts 1862
Sama veður [sólskin og sunnan frostgola]. Ég fór ofaná Akureyri og dvaldi þar um daginn og gisti um nóttina hjá Indriða gullsmið, drakk nokkuð. Comediur fórust fyrir vegna dauðsfalls hjá Havsteen."
Comediur voru gleðileikir eða gamanleikrit og er hér væntanlega verið að tala um sýninguna "En Comedie i det Grönne" sem sýnd var á Akureyri um þessar mundir. Leiksýningin hefur væntanlega verið á dönsku og Jakob Chr. Jensen, 24 ára danskur verslunarþjónn, lék hinn hrekkjótta Dalby sem brá sér í 6 mismunandi manngerðir. Jensen var nýkominn frá Kaupmannahöfn þar sem hann hafði fengist við leiklist og varð brátt helsti leikari og leikstjóri staðarins.