Árið 1909 áttu fjórar frúr á Akureyri sameiginlegan draum: Að setja á laggirnar lystigarð fyrir almenning þar sem bæjarbúar ættu þess kost að dvelja sér til hressingar og ánægju... Þessar konur voru þær frú Anna Stephensen kaupmannsfrú, Alma Thorarensen lyfsalafrú, María Guðmundsson bæjarfógetafrú og Sigríður Sæmundsen prestsfrú, síðar vígslubiskupsfrú.
Þær rituðu bréf til bæjarstjórnar og sóttu um að fá landspildu undir skrúðgarð. Þeirra ósk var að bærinn myndi láta af hendi land sem væri 7 engjadagssláttur (1 dagslátta: 30x30 faðmar) að stærð. Með bréfinu fylgdi tillaga Koefoed-Hansen skógræktarstjóra um fjögur lönd í bænum sem vel gætu hentað til skrúðgarðagerðar. Í frétt sem birtist í blaðinu Gjallarhorni þann 8. september árið 1910 er greint svo frá:
„Lengi voru ráðagerðir um hvar hann skyldi vera. Talað var um »Gilið« upp af mið-innbænum, »Hlíðina« ofan við útbæinn og ýmsa bletti í landareign Hamarkots og Bandagerðis. En í júlí (1909) fengu forstöðukonurnar Kofoed-Hansen skógræktarstjóra í landkönnunarferð með sér og var staðurinn valinn í þeim leiðangri. Neðsti hluti Eyrarlandstúnsins, sunnan við gagnfræðaskólann, beint upp að landareign Guðlaugs bæjarfógeta. Þar er mjög fagurt útsýni. Til norðurs sér út yfir Eyjafjörð svo langt sem augað eygir, en til suðurs inn til fjallanna, yfir Eyjafjarðará er hvíslast utanum »Hólmana« í óteljandi bugðum. Og beint framan við er Akureyrarhöfn. »Pollurinn« þar sem Vaðlaheiði stendur á höfði, um blækyr vorkvöld og glóbjartar hásumarnætur!“
Textinn hér á undan en tekinn úr handriti væntanlegrar bókar Ástu Camillu Gylfadóttur: Konur gerðu garðinn, saga Lystigarðs Akureyrar 1912-2012.
Lystigarðurinn var opnaður fyrir almenning á haustdögum 1912 og var til að byrja með opinn á sunnudögum. Það eru því tímamót í sögu þessarar bæjarperlu á árinu og hefur því nú þegar verið minnst með útgáfu frímerkis 3. maí s.l.
Í fyrstu var Lystigarðurinn í umsjón og eigu Lystigarðsfélagsins, sem að mestu leyti var skipað konum, með Önnu Schiöth í forustu. Eftir að Anna lést 1921 tók Margrét tengdadóttir hennar við keflinu. Næstu áratugi vann hún af fórnfýsi og áhuga að umhirðu garðsins allt þar til hún afhenti bænum garðinn árið 1953. Margrét fæddist 31. júlí 1871 en það er ráðgert að áðurnefnd afmælisbók komi út á þeim degi. Ásta Camilla hefur verið tíður gestur Héraðsskjalasafnsins undanfarna mánuði enda eru hér skjöl bæði frá Lystigarðsfélaginu, Lystigarðsnefnd og skrúðgarðanefnd sem hún hefur notað við gerð bókarinnar.