Fyrstu konur í sveitarstjórnum í Eyjafirði

Siglufjörður
Anna Lára Hertervig kaupkona, kjörin árið 1966 og sat í bæjarstjórn til 1970.

Ólafsfjörður
Birna Friðgeirsdóttir húsmóðir, kjörin 1978 og var í 12 ár eða til 1990.

Fjallabyggð
Fyrstu konur í bæjarstjórn Fjallabyggðar voru Bjarkey Gunnarsdóttir Ólafsfirði og Jónína Magnúsdóttir Siglufirði en þær áttu sæti í fyrstu bæjarstjórn hins nýstofnaða sveitarfélags árið 2006.  Jónína hafði áður verið í bæjarstjórn Siglufjarðar.  Jónína var í bæjarstjórn til 2010 en Bjarkey til 2013 er hún tók sæti á Alþingi.

Dalvík
Guðlaug Björnsdóttir og Svanfríður Inga Jónasdóttir voru kosnar í bæjarstjórn Dalvíkur árið 1982 og væru þær fyrstu konurnar sem kjörnar voru í bæjarstjórn á Dalvík.  Guðlaug átti sæti í bæjarstjórninni til 1994 en Svanfríður til 1988 en hún var svo aftur í bæjarstjórninni 1994-1998 og 2006-2014.

Svarfaðardalshreppur
Eina konan sem átti sæti í hreppsnefnd Svarfaðardalshrepps var Svana Halldórsdóttir bóndi og húsmóðir á Melum.  Hún var kjörin 1986 og var eitt kjörtímabil í hreppsnefndinni.

Árskógshreppur
Fyrstu konur í hreppsnefnd Árskógshrepps voru Halldóra Kolbrún Ólafsdóttir og Hildur Marinósdóttir.  Þær voru kosnar árið 1994 og sátu kjörtímabilið á enda en þá varð hreppurinn hluti Dalvíkurbyggðar.

Dalvíkurbyggð
Fyrstu konur í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar voru Gunnhildur Gylfadóttir Steindyrum, Ingileif Ástvaldsdóttir, Katrín Sigurjónsdóttir og Svanhildur Árnadóttir allar á Dalvík. Katrín og Svanhildur voru báðar áður í bæjarstjórn Dalvíkur.  Gunnhildur var í bæjarstjórn til 2002 en þær Ingileif, Kartrín og Svanhildur til 2006.

Hrísey
Tvær konur áttu sæti í hreppsnefnd Hríseyjarhrepps.  Það voru Ingveldur Gunnarsdóttir ljósmóðir, sem átti þar sæti 1974-1982 og Þórunn Arnórsdóttir skólastjóri 1994-2002.

Arnarneshreppur
Ásta Ferdinandsdóttir bóndi og húsmóðir í Spónsgerði var fyrsta konan sem kosin var í hreppsnefnd Arnarneshrepps.  Hún átti þar sæti til 1998 eða í fjögur kjörtímabil.

Skriðuhreppur
Sigurbjörg Sæmundsdóttir bóndi og húsmóðir í Skriðu var eina konan sem var í hreppsnefnd Skriðuhrepps.  Hún var í hreppsnefndinni 1986-1994.

Öxnadalshreppur
Fjóla Rósantsdóttir bóndi og húsmóðir í Hólum var fyrri konan í hreppsnefnd Öxnadalshrepps.  Hún var í nefndinni 1986-1991.  Jóna Kristín Antonsdóttir bóndi og húsmóðir á Þverá var kosin 1998 en hún átti einnig sæti í sveitarstjórn Hörgárbyggðar.

Glæsibæjarhreppur
Tvær konur áttu sæti í hreppsnefnd Glæsibæjarhrepps.  Það var annars vegar Guðrún Björk Pétursdóttir bóndi og húsmóðir á Gásum en hún var kjörin 1990 og var í hreppsnefndinni til 2001. Hin konan var Aðalheiður Eiríksdóttir viðskiptafræðingur en hún var kosin 1994.  Aðalheiður átti einnig sæti í sveitarstjórn Hörgárbyggðar og var þar til 2002.

Hörgárbyggð
Fyrstu konur í sveitarfélaginu Hörgárbyggð, sem stofnað var 2001, voru Aðalheiður Eiríksdóttir og Jóna Kristín Antonsdóttir.  Báðar hættu í sveitarstjórn við kosningar árið eftir.

Hörgársveit
Sveitarfélagið Hörgársveit varð til við kosningar 2010 og fyrstu konur í sveitarstjórninni voru Birna Jóhannesdóttir skattfulltrúi, Jóhanna María Oddsdóttir sjúkraliði og Guðný Fjóla Árnmarsdóttir skrifstofumaður.

Akureyri
Fyrsta konan í bæjarstjórn Akureyrar var Kristín Eggertsdóttir forstöðukona sjúkrahússins.  Hún var kjörin árið 1911 og var í bæjarstjórn til 1914.

Hrafnagilshreppur
Fyrsta konan í hreppsnefnd var Anna Guðmundsdóttir bóndi og húsmóðir Reykhúsum.  Hún var kosin 1982 og var í hreppsnefndinni til 1990.

Saurbæjarhreppur
Auður Eiríksdóttir bóndi og húsmóðir í Hleiðargarði er eina konan sem var í hreppsnefnd Saurbæjarhrepps.  Hún var í nefndinni 1982-1990.

Öngulsstaðahreppur
Fyrsta og eina konan sem var í hreppsnefnd Önuglsstaðahrepps var Emilía Baldursdóttir Syðra Hóli.  Hún var í nefndinni 1982-1990.

Eyjafjarðarsveit
Eyjafjarðarsveit varð til um áramótin 1990-1991 en það var ekki fyrr en 1998 sem fyrstu konur tóku sæti í sveitarstjórn þegar Aðalheiður Harðardóttir Rifkelsstöðum, Arnbjörg Jóhannsdóttir Kvistási og Dýrleif Jónsdóttir í Litla-Garði voru kosnar.  Þær sátu allar eitt kjörtímabil eða til 2002.

Svalbarðsstrandarhreppur
Guðbjörg Kortsdóttir frá Þórisstöðum var fyrsta konan sem var í hreppsnefnd Svalbarðsstrandarhrepps.  Hún var í nefndinni 1978-1982.

Grýtubakkahreppur
Sigríður Sverrisdóttir var fyrsta konan í sveitarstjórn Grýtubakkahrepps. Hún var kosin 1982 og var til 1990.

Grímseyjarhreppur
Fyrsta konan í hreppsnefnd Grímseyjar var Kristjana B. Bjarnadóttir og var kjörin 1990.  Hún var í nefndinni til 1994.

Meðal þess sem er á sýningunni ,,Heill þér mæta, merka kona“ er listi yfir konur sem verið hafa aðalfulltrúar í sveitarstjórnum í Eyjafirði og þær sem hafa verið þingkonur á Norðurlandi eystra.

 
Skrá yfir konur í sveitarstjórnum
við Eyjafjörð 1911-2015