Í manntali í Hrafnagilssókn 31.12. 1862 má sjá hverjir bjuggu á Akureyri þegar bærinn fékk kaupstaðarréttindin. Húsin eru númeruð og byrjað er að taka manntal í húsi númer 1 syðst í Fjörunni. Hver fjölskylda fær síðan bókstaf aftan við númerið til aðgreiningar. Sum húsin fengu nöfn og voru gjarnan kennd við eigendur, svo sem Salbjargarbær, Indriðahús, Arabía, Davíðsbær o.s.frv.
Föstudaginn 24. ágúst verður opnuð sýning á Héraðsskjalasafninu, Brekkugötu 17 og ber hún nafnið Fólkið í kaupstaðnum.
Þar eru teknir fyrir íbúar bæjarins og þeim gerð skil í ættfræði og skjölum. Þeir sem vilja rekja ættir sínar til þessa fólksins sem bjó í kaupstaðnum 1862 geta beðið um aðstoð hjá skjalavörðum. Sýningin verður opin til 24. september kl. 10:00-19:00 á virkum dögum.
Hér verður tekið dæmi um efni á sýningunni og tekið fyrir hús sem stóð á lóðinni Aðalstræti 38. Grímur Laxdal mun fyrstur hafa fengið þessa lóð til að byggja sér íbúðarhús og reisti þar torfbæ sem stóð á baklóð hússins Aðalstræti 38, sem nú er. Árið 1843 keypti Ari Sæmundsen af Grími og bjó þar þegar Akureyri fékk kaupstaðarréttindin. Torfbærinn var nefndur eftir Ara og kallaður Arabía. Seinna eignaðist Þorgrímur Þorvaldsson Arabíu, en hann er vinnumaður hjá Ara árið 1862. Þorgrímur var mikill gleðimaður og hafði lært að dansa hjá Steincke verslunarstjóra. Synir hans, Friðrik og Pétur, tóku gleðina í arf. Báðir spiluðu þeir á harmoniku, stundum fyrir dansi, og sungu í kórum. Árið 1892 byggðu bræðurnir húsið sem enn stendur á lóðinni. Vestur af því byggði Pétur síðar hlöðu og gripahús á grunni gamla torfbæjarins.
Þann 31.12.1862 bjuggu í húsi númer 17, eða Arabíu, 12 manns:
17a Ari Sæmundsen umboðsmaður 66 ára
Sigríður Grímsdóttir kona hans 71 árs
Pétur Júlíus Sæmundsen ættleiðingur þra 22 ára
Þorgrímur Þorvaldsson vinnum. 23 ára
Sigríður Þorvaldsdóttir vinnuk. 28 ára
Jóhanna Sigurlaug Jónsd. vinnuk. 23 ára
Jósefína Guðmundsdóttir tökubarn 7 ára
Benedikt Halldórsson vinnum. 28 ára
17b Ari Arason tómthúsm. 72 ára
Arnleif Pálsdóttir kona hans 68 ára
17c Sveinbjörn Ólafsson timburm. 30 ára
Margrét Hannesdóttir kona hans 33 ára
Dæmi um ættfræði á sýningunni má sjá hér:
Ari Sæmundsen, f. 16.7.1797 á Krossi í Lundareykjadal, Borgarfirði, d. 31.8.1876 á Akureyri, bókbindari, umboðsmaður, skrifari sýslumanna og tvívegis settur sýslumaður, dannebrogsmaður og skáld, bjó í Krossanesi, Melgerði í Saurbæjarhreppi og Akureyri. Ari var kosinn í fyrstu bæjarstjórn Akureyrar árið 1863 og sat aðeins í tvö ár, enda orðinn roskinn maður. For.: Sæmundur Jónsson og Guðrún Þorsteinsdóttir hjón á Krossi, Lundareykjadal.
- K. 23.10.1829, Sigríður Grímsdóttir, f. 1.5.1792 í Ytri-Villingadal, Saurbæjarhreppi, d. 20.2.1866 á Akureyri, ljósmóðir. For.: Grímur Magnússon "græðari" og k.h. Sigurlaug Jósefsdóttir, hjón á Espihóli. Ættleitt barn þeirra:
a Pétur Júlíus Sæmundsen, f. 26.1.1841 á Stokkahlöðum, Hrafnagilshreppi,
d. 19.9.1915 á Akureyri, verslunarmaður á Akureyri og í Kaupmannahöfn
1859-1884, verslunarstjóri Blönduósi 1884-1913.
- K. 21.7.1875, Magdalena Margrét Sæmundsen, f. 31.1.1844 á Akureyri,
húsfreyja á Blönduósi. For.: Edvald Eilert Möller, verslunarstjóri og póst-
meistari á Akureyri og k.h. Margrét Jónsdóttir Möller.
Börn þeirra:
aa Edvald Sæmundsen, f. 1878, d. 19.9.1926, verslunarstjóri á Blönduósi.
ab Ari Sæmundsen, f. 1880, dó ungur.
ac Sigríður Sæmundsen Davíðsson, f. 13.11.1882, d. 27.4.1966, húsfreyja
á Akureyri.
ad Karl Sæmundsen, f. 14.2.1886, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn.