Íþróttamenn o.fl. ganga fylktu lið á Íþróttavöllinn á Akureyri 26. ág. 1962
Í tilefni af 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands ætlar ÍSÍ og Héraðsskjalasöfn á
Íslandi að hefja formlegt samstarf um skráningu og söfnun á íþróttatengdum skjölum. Átakið hefst í dag 18. apríl og
þá eru einmitt 100 dagar fram að Ólympíuleikunum í London.
Það sem um ræðir eru m.a. fundagerðabækur, sendibréf, tölvupóstur, ljósmyndir, félagaskrár, mótaskrár,
ársskýrslur, kynningarefni og annað sem felur í sér sögu og lýsir starfsemi félaganna.
Það er mikilvægt að við horfum til framtíðar og höldum því til haga sem skrifað er, því sem myndað er og það sem
gert er. Hvaða hugsjónir voru að baki, hvernig voru keppnisferðir fjármagnaðar, hverjir áttu metin fyrir hundrað árum síðan, hverjir
voru í stjórnum? Mikilvægt er að við glötum ekki sögunni.
Forsvarsmenn íþróttafélaga, íþróttasambanda og þeir aðilar sem hafa unnið í íþróttahreyfingunni í gegnum
tíðina eru nú hvattir til að kíkja upp á háaloft eða í kassana í kjallaranum og koma því sem þar finnst á
réttan stað. Helsta markmið með þessu átaki er að gögnin séu skráð og aðgengileg og ekki síst geymd á öruggum
stað.
Á Héraðsskjalasafninu á Akureyri er nú þegar mikið til af skjölum sem tengjast íþróttum. Hægt er að skoða skrár
yfir skjölin og er
hér vísað á skrá yfir félög sem skilað hafa
skjölum sínum til safnsins. Starfsfólk er boðið og búið til að veita ráðgjöf og aðstoð við þá sem vilja koma
sínum skjölum í gott horf og/eða afhenda þau á safnið.