Af heiðursborgurum

Í tímans rás hafa átta einstaklingar verið kjörnir heiðursborgarar á Akureyri.  Sá fyrsti var kjörinn 11. nóvember 1920 en það var sr. Matthías Jochumsson, sem varð 85 ára þann dag.

Matthías var þjóðþekktur maður og eftir hann liggur mikið af sálmum, ljóðum og rituðu efni en sennilega er hann þekktastur fyrir Lofsönginn og leikritið Útilegumennina (Skugga-Sveinn).  Matthías fluttist til Akureyrar 1887 og þjónaði Akureyringum til fardaga 1900.  Hann lést 18. nóvember 1920.

Finnur Jónsson var kjörinn heiðursborgari  12. júní 1928.  Hann fæddist á Akureyri 29. maí 1858 og fluttist sjö ára gamall til Reykjavíkur.  Í kjörbréfi heiðursborgarans segir m.a. ,,...að Finnur Jónsson prófessor í Kaupmannahöfn, sem er fæddur á Akureyri, og óefað að verðleikum langfrægastur allra innborinna Akureyringa og allra núlifandi Íslendinga fyrir vísindaleg afrek í forn-íslenskum fræðum, verði kjörinn heiðursborgari Akureyrarbæjar  nú er hann hefir fylt sitt sjötugasta aldursár.“

Nonni fæddist á Möðruvöllum 1857, fluttist til Akureyrar 1865 og fór héðan 1870.  Eftir það kom hann til Akureyrar 1894 og svo eftir Alþingishátíðina á Þingvöllum 1930.  Bæjarstjórn kom saman 26. júní  1930 og í fundarályktun segir m.a. ,,...bæjarstjórnin...er öll sammála um, að Pater Jón Sveinsson, sem í bernsku dvaldi á Akureyri og hefir með rithöfundarstarfi sínu borið nafn bæjarins víða um heim bænum og þjóðinni til vegsauka og gleði, verði kjörinn heiðursborgari Akureyrarbæjar nú er hann gistir bæinn eftir rúma sextíu ára fjarveru.“

Oddur Björnsson prentmeistari var kjörinn heiðursborgari sama ár og hann varð sjötugur eða  28. desember 1935.  Í kjörbréfinu segir:  ,,Herra prentmeistari Oddur Björnsson hefir um þriðjung aldar dvalið á Akureyri, rekið þar prentiðn og bókaútgáfu við ágætan orðstír.  Auk þess hefir hann safnað bókum alla æfi, helgað því starfi tómstundir sínar og umhyggju, og loks sýnt þá höfðinglegu rausn, að gefa Akureyrarbæ bókasafn sitt, frábært að verðmæti, með fögru fyrirheiti um mikla fjárupphæð, því til viðhalds og eflingar.“

Á bæjarstjórnarfundi 29. júlí 1941 bar Axel Kristjánsson bæjarfulltrúi upp tillögu en í henni sagði m.a.: ,,...að frú Elisa Margarethe Schiöth, sem átt hefir öllum borgurum þessa bæjar drýgri þátt í að auka varanlega fegurð bæjarins með blóma- og trjárækt og skapa þannig öðrum fagurt fordæmi, verði kjörin heiðursborgari Akureyrarbæjar í tilefni af 70 ára afmæli hennar 31. þessa mánaðar.“  Tillagan var samþykkt í einu hljóði.
Margarethe fluttist til Akureyrar 1899 og bjó hér alla tíð síðan.  Hún lést 1962.


Davíð Stefánsson var kjörinn heiðursborgari þegar hann varð sextugur 21. janúar 1955.  Í ávarpi til hans segir:  ,,Bæjarstjórn Akureyrar flytur yður sextugum alúðarkveðjur og árnaðaróskir.  Hún minnist þess í dag, að Akureyrarbær skuli hafa átt því láni að fagna, að þér hefið verið borgari hans um langt skeið og unnið hér gagnverk og þjóðkunn bókmenntaafrek, er seint munu fyrnast.  Akureyrarbær telur sér það vegsauka og hróður, að þér hafið unað hér og starfað.“

Það var á 75 ára afmælisdegi Jakobs Frímannssonar sem hann var kjörinn  heiðursborgari.  Í heiðursbréfinu segir:  ,,Sem vott virðingar sinnar og þakklætis fyrir einstætt framlag þitt til alhliða framfara bæjarfélagsins hefur bæjarstjórn Akureyrar einróma kjörið þig heiðursborgara Akureyrar frá og með 7. okt. 1974.“

Steindór Jónas Steindórsson fæddist 12. ágúst 1902 og var kjörinn heiðursborgari 16. janúar 1994. Í kjörbréfinu segir: ,,Í þakklætis- og virðingarskyni fyrir afrek þín í þágu lands og þjóðar og fyrir að hafa með störfum þínu og búsetu aukið veg og reisn Akureyrar hefur bæjarstjórn Akureyrar einum rómi kjörið þig heiðursborgara bæjarins...“