Það hefur ekki farið framhjá neinum að konur og vinnuhjú eiga 100 ára kosningaréttarafmæli nú um þessar mundir. En það hefur ekki farið eins hátt að 19. júní 1915 fengu konur og vinnuhjú kosningarétt og kjörgengi til Alþingis og árið 1915 voru konur búnar að fá kosningarétt og kjörgengi til sveitarstjórna.
Árið 1882 fengu ekkjur og aðrar ógiftar konur sem stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar kosningarétt þegar kjósa átti í hreppsnefnd, sýslunefnd, bæjarstjórn og á safnaðar-fundum, svo fremi þær væru orðnar 25 ára og uppfylltu þau skilyrði sem lög kváðu á um. Kjörgengi fylgdi ekki þessum réttindum, sem náði til lítils hóps kvenna. Vinnukonur töldust ekki eiga með sig sjálfar.
Árið 1902 fengu konur sem fengið höfðu kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum 1882 kjörgengi.
1907 fengu giftar konur í Reykjavík og Hafnarfirði 25 ára að aldri kosningarétt og kjörgengi til bæjarstjórnarkosninga með sömu skilyrðum og karlar. 1909 fengu allar konur á landinu þessi réttindi, að undanskildum vinnukonum. Skilyrðin kosningaréttarins voru nokkur, m.a. 25 ára aldur, óflekkað mannorð, að eiga lögheimili á staðnum, að standa ekki í skuld fyrir sveitarstyrk og greiða gjald í bæjarsjóð eða hreppssjóð.
Með stjórnarskrárbreytingum 1920 fengu hjú kosningarétt og árið 1926 fengu vinnukonur kjörgengi í sveitarfélögum. Þá voru einnig afnumin ákvæði í kosningalögum sem heimiluðu konum að skorast undan kosningu.
Eftir breytingarnar á kosningalögunum 1909 bauð Halldóra Bjarnadóttir forstöðukona barnaskólans á Akureyri sig fram við bæjarstjórnarkosningar á Akureyri 1910. Hún náði ekki kjöri en árið eftir bauð Kristín Eggertsdóttir forstöðukona sjúkrahússins á Akureyri sig fram og var kosin. Hún var þar með fyrsta konan í bæjarstjórn á Akureyri.
Meðmælendalistar Halldóru og Kristínar eru meðal þess sem er á sýningu Héraðsskjalasafnsins ,,Heill þér mæta, merka kona“. Sýningin mun standa til mánaðamóta.